142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[17:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska nýkjörnum forseta vorum til hamingju með embættið þar sem ég hef ekki haft færi á því fyrr. Sömuleiðis nýjum hv. þingmönnum sem hér eru allmargir að stíga sín fyrstu skref í þingstörfunum. Við væntum auðvitað góðs af öllu saman.

Mig langar að spyrja í fyrsta lagi forseta eða fá það staðfest: Er ekki rétt að hér sé á ferðinni stjórnartillaga sem flutt er af hæstv. forsætisráðherra? Er það rétt hjá ræðumanni?

(Forseti (EKG): Alveg hárrétt.)

Það er rétt hjá ræðumanni, gott er að vita það. Þarna sé ég meira að segja hæstv. forsætisráðherra, gleður það mig ákaflega, því að mér þóttu þunnskipaðir ráðherrabekkirnir hérna í þessu stóra máli ríkisstjórnarinnar. En það er gott að sjálfur höfuðpaurinn er mættur til að svara fyrir málið og gleður mig mjög.

Í fyrsta lagi langar mig aðeins að nefna formið á málinu ef hæstv. forsætisráðherra mætti við bindast og væri kannski tilbúinn til að útskýra aðeins — það eru einhver önnur brýnni mál hér í hliðarsal sem ég heyri að teppa forsætisráðherra.

Mig langar örlítið til að grennslast fyrir um hvort hér sé að vænta einhvers konar nýbreytni í undirbúningi ríkisstjórnar að málum almennt, að hún hyggist sækja sér sérstaklega og aukalega umboð til þingsins eða hvatningu frá þinginu til góðra verka og vænta megi þess að það verði þá gert í fleiri tilvikum.

Ég hef aðeins velt fyrir mér þingræðislegu eða stjórnskipulegu gildi þessarar þingsályktunartillögu, sérstaklega út frá innihaldi hennar, og hvaða tilgangi hún í aðalatriði þjóni öðrum en þeim að vera einhvers konar hvatning til ríkisstjórnarinnar. En þá hlýtur ríkisstjórnin að hugsa málið þannig að hún þurfi á þeirri hvatningu að halda frá þinginu til að koma þessum verkum af stað.

Þegar litið er á innihaldið er inngangsmálsgreinin um að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun í tíu liðum, sem er svo neðangreint. Þar er fyrsti liðurinn sá að settur verði á fót sérfræðingahópur sem útfæri mismunandi leiðir til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra lána.

Ég velti fyrir mér, hvað er það opið umboð sem þessi sérfræðingahópur hefur? Ber að líta svo á að það sé engin leiðsögn frá loforðum eða binding við loforð stjórnarflokkanna? Ég hef misskilið kosningabaráttuna eitthvað úr því þetta er svona. Ég taldi mig alltaf vera að lenda í rökræðum um þessi mál að þetta væri klappað og klárt og fyrir lægi hvernig þetta yrði gert og það strax í sumar. Þetta hefur greinilega skolast eitthvað til í kosningabaráttunni úr því að fara þarf að setjast yfir þetta núna og útfæra mismunandi leiðir. Er það þá sem sagt út af borðinu að farið verði í 20% lækkun allra verðtryggðra neytendalána eða a.m.k. húsnæðislána í sumar upp á 240 milljarða eða svo? Hvenær gufaði það upp? Var það daginn eftir kjördag?

Í öðru lagi. Mun stjórnarandstaðan eiga aðild að þessu starfi, þessum ótal sérfræðingahópum, verkefnisstjórnum og aftur sérfræðingahópum sem hér á að fara að skipa? Er ríkisstjórnin að sækja umboð til þingsins í þeim skilningi að hún ætli að hafa allt þingið með sér í þeirri vinnu? Verður stjórnarandstaðan höfð með í ráðum í sambandi við mönnun þeirra nefnda, starfshópa og verkefnisstjórna og hvað þetta nú allt er?

Mér telst til að það séu fimm nefndir í þessu eða sérfræðingahópar og verkefnisstjórnir að meðtalinni sérstakri ráðherranefnd. Ég geri nú ekki ráð fyrir að stjórnarandstaðan fái sæti í henni, en í hinum kannski eða gæti bent á hæfa sérfræðinga til að vera með í þessu starfi, menn sem nytu sérstaks trúnaðar stjórnarandstöðunnar.

Það er talsvert af úttektum á kostum og göllum og að kannað verði og aftur að kannað verði, maður spyr auðvitað sömuleiðis um það hvernig að því verði staðið. Nú kann þetta að hafa að einhverju leyti komið fram í umræðunni en ég held að gagnlegt væri, herra forseti, ef forsætisráðherra, sem hlýtur að geta tekið til máls aftur í lok umræðunnar, færi aðeins yfir þetta fyrir okkur svona í lokin, dragi þetta saman. Mér býður svo í grun að hann kunni að hafa fengið spurningar af þessu tagi eða hliðstæðar í umræðunni fram að þessu.

Ég vil sömuleiðis taka undir spurningu sem fram kom um lánsveðssamkomulagið og hvort þess sé ekki að vænta að fullnægjandi lögheimilda verði leitað á Alþingi á þessu sumarþingi til að efna það samkomulag. Það er auðvitað mjög brýnt því að lífeyrissjóðirnir vilja hafa vissu fyrir því að stjórnvöld fái í sínar hendur fullar heimildir til að efna sinn hluta samkomulagsins. Það var boðað þegar það var undirritað og formenn þáverandi stjórnarandstöðuflokka voru upplýstir um það að væntingar manna stæðu til þess að í góðri samstöðu mundi þingið á vorþingi færa framkvæmdarvaldinu fullnægjandi heimildir til að halda áfram að vinna það samkomulag til enda þannig að hægt væri að hefjast handa um að auglýsa eftir umsóknum um niðurfærslu lána hjá lánsveðshópnum svo að hann gæti seint um síðir fengið sína útfærslu af 110%-leiðinni. Mér finnst ómögulegt annað en að við fáum um það skýr svör hvort ekki standi til að efna þetta samkomulag þannig að sá hópur verði ekki skilinn eftir. Það mun engin áhrif hafa að sjálfsögðu þó að það samkomulag gengi til enda og sína leið þótt síðan ætti sér stað í framhaldinu einhver frekari niðurfærsla lána, einfaldlega vegna þess að þetta gerir lánsveðshópinn jafn settan eða nær því að vera jafn settan við alla þá sem búnir eru að fá 110% leiðréttingu sinna mála. Það hlyti að einfalda málin frekar en hitt að hann væri kominn á sama stað.

Ég vildi gjarnan að hæstv. forsætisráðherra ræddi aðeins um þetta við okkur eða svaraði þeim spurningum ef hann vildi vera svo vænn að gera það. Ég ætla þá að láta öðrum eftir það sem er afgangs af ræðutíma mínum, forseti, og þakka kærlega fyrir gott hljóð í salnum.