142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að bregðast við fullyrðingum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar þar sem hv. þingmaður segir að ég hafi tekið þessa ákvörðun eftir að ég sá hverjir voru tilnefndir. Það er alrangt. Ég sagði það hvergi. Ég sagði einfaldlega að þegar ég settist yfir málið þegar ég kom í embætti hafi ég sannfærst um að það fyrirkomulag sem lagt var upp með væri ekki heppilegt og hefði umtalsverða galla og því hafi ég talið nauðsynlegt að bregðast við með því að leggja fram þetta frumvarp.

Ég veit ekki hvort hv. þingmaður trúir því sem ég ætla að segja núna. Ég ætla samt að segja honum það, virðulegi forseti. Ég áttaði mig á því kl. 11.06 í dag hverjir hefðu verið tilnefndir, það var nákvæmlega þá sem ég bað um að mér yrðu afhentar upplýsingar um tilnefningarnar. Ég hafði ekki fyrr áttað mig á því að upplýsingarnar væru komnar. Þær voru prentaðar út fyrir mig og ég sé það bara á tímasetningunni á blaðinu klukkan hvað það var, þess vegna get ég sagt nákvæmlega til um hvenær það var. Fyrr hafði ég ekki hugmynd um hverjir væru tilnefndir. Ég veit að það eru nú bara mín orð en ég er með þennan pappír hér.

Aðalatriðið er að þetta hefur ekkert að gera með það hverjir hafa verið skipaðir núna eða ekki. Það er bara spurningin um hvort maður telur að það valnefndarfyrirkomulag sem lagt er upp með þarna sé heppilegt eða ekki. Ég er ósammála því. Það hefur reyndar komið fram í umræðunni að tilgangurinn hafi ekki endilega verið sá að aftengja pólitíkina, að armslengdarsjónarmiðið hafi búið að baki, heldur var hugsunin meira sú að breikka samráðsvettvanginn um hvernig mynda skyldi stjórnina. Gott og vel. Ég ítreka það sem ég benti á áðan að þessi vettvangur með 63 þingmönnum sem vissulega skiptast í flokka og hver flokkur, einnig sá flokkur sem ég tilheyri, sem er með 19 þingmenn, þarf að setjast niður og taka afstöðu. Þetta fólk kemur alls staðar að af landinu og er með víðtæka reynslu, menntun og ólíkan bakgrunn. Ég held að þessi hópur, 63 þingmenn, geti tekið mjög upplýsta og góða ákvörðun. Ég held hann sé breiðari vettvangur en sá sem lagt er upp með í núgildandi lögum, virðulegi forseti.