142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú átt nokkuð gott og langt samstarf við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi. Eins og hann veit er ég mjög sanngjarn maður. Ég hef tilhneigingu til þess að segja hið sama um hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eins og hann á kyn til þannig að ég vil alveg trúa því sem hann segir hér um tímasetningarnar sem hann les upp úr síma sínum og er ekkert meira um það að segja. Ekki ætla ég að rengja það eitt augnablik. Ég segi bara að ég skráði niður hjá mér þessi orð: „… sá hvaða fólk var tilnefnt“. Ég mun kanna það þegar ræðan verður aðgengileg nákvæmlega í hvaða samhengi þau orð voru látin falla og hvor okkar hefur rétt fyrir sér. Ég ætla ekki að fara að kýta við hæstv. ráðherra um það. Ég ætla að láta hann njóta vafans í því efni, mér finnst það sanngjarnt.

Hitt er svo annað mál að við erum einfaldlega ósammála um það efni sem hæstv. ráðherra talar um, að hann telur mikilvægt að það séu bein pólitísk tengsl og að stjórn Ríkisútvarpsins sé algjörlega pólitískt tengd við Alþingi.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur var ekki hugsunin endilega sú að skilja algerlega að pólitíkina, það ætti að sjálfsögðu að vera einhver pólitísk tenging, en hugsunin var að breikka aðkomuna. Og það er það sem við erum í raun að halda fram sem sjónarmiði inn í umræðuna að hafi verið tilgangur laganna, það nái utan um ólík sjónarmið, m.a. það sjónarmið sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er með, a.m.k. að hluta til, kannski ekki að fullu leyti en að hluta til.

Af því að það var breið samstaða um málið á þingi í vor teljum við ekki skynsamlegt eða tilefni til þess að fara að gera breytingu hvað þetta varðar.