142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að ákvörðun mín um að leggja fram þetta frumvarp byggði á þeim efnislegu rökum sem ég hef rakið. Það gæti aldrei verið þannig að ég byggði ákvörðun mína á hvaða nöfn hafa síðan verið tilnefnd, það væri auðvitað alveg út í hött.

Ég hef líka sagt það hér í ræðu að ég treysti afskaplega vel þeim einstaklingum sem þarna hafa verið tilnefndir. Ég held t.d. að Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra listamanna, sé mjög vel hæf í þetta, jafn hæf hvort sem það er setið hér inni eða í Bandalagi íslenskra listamanna. Sama gildir um tilnefninguna sem kom frá háskólanum. Þetta er afskaplega hæft fólk. Það er ekki það sem ég hef áhyggjur af eða geri ágreining um, það er kerfið, fyrirkomulagið.

Þá verð ég bara að segja það enn og aftur, virðulegi forseti, þannig að það skiljist nú alveg örugglega: Ég tel hættu fólgna í því að vera með þetta valnefndarfyrirkomulag — það sé hætta sem geti myndast með að menn búi sér til falskt öryggi um að það séu t.d. ekki pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu. Ég rakti það í máli mínu.

Af því að því var nú velt upp hér í annað sinn að mönnum fyndist það undarlegt að ég hefði tekið það fram í ræðu minni að það væri t.d. hætta á því að einhver menntamálaráðherra reyndi að beita áhrifum sínum í þessu máli er það einmitt málið að ég held að það eigi vel að vera hægt að sjá fyrir sér þá stöðu, því miður. Við þekkjum báðir ég og hv. þingmaður hvernig pólitíkin getur gengið fyrir sig og hvernig harka getur hlaupið í mál. Það er ekkert útilokað að slíkt geti gerst. Það bara vill þannig til með akkúrat þessa tvo aðila, tilnefningaraðila, Bandalag íslenskra listamanna og Háskóla Íslands, að þeir eiga dálítið mikið undir samskiptum sínum við ráðherrann.

Ég er ekki að fullyrða að svona lagað mundi geta gerst, en ég er bara að segja að við eigum að hafa kerfið þannig að það sé gagnsætt og það sé yfir þennan vafa hafið með sem bestum hætti.

Svo vil ég nefna það varðandi þá sem sitja núna í stjórn útvarpsins, ég man bara eftir því að hjá okkur sjálfstæðismönnum var Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri, sem kemur einmitt úr þessum menningargeira, dæmi um val okkar hér, sem ég mundi segja (Forseti hringir.) að sýni bara það hvernig við höfum tekið á þessu hvað varðar t.d. menningarmálin. Hví skyldi Alþingi Íslendinga ekki geta staðið að því (Forseti hringir.) að skipa slíka nefnd? Okkur er nú treyst fyrir að setja lög í landinu sem fólk á að fara eftir. Hví (Forseti hringir.) skyldi okkur ekki vera treyst fyrir þessu verkefni?