142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa fylgst með blaðamannafundinum þar sem við fórum yfir stöðu ríkisfjármála og drógum fram það sem ekki hefur verið almennilega viðurkennt í umræðu um ríkisfjármálin á þessu ári fram til þessa, sem er það að áætlun um heildarjöfnuð í ríkisfjármálum á næsta ári hefur verið stefnt í mjög mikla óvissu með því að menn hafa verið allt of bjartsýnir um t.d. efnahagshorfur á þessu ári og allt of bjartsýnir um einskiptistekjur sem ekki eru að skila sér. Ég nefni þar sem dæmi söluhagnað af eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Svo voru menn svolítið djarfir eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt að ákveða nýja útgjaldaþætti eins og þann sem komið var inn á og eru ófjármagnaðir. Barnatannlækningar hafa verið nefndar. Þær eru bara dæmi um útgjaldaþátt sem mun á næstu árum smám saman leiða til um það bil milljarðs í auknum útgjöldum fyrir ríkið en er ófjármagnaður. Það stendur ekki til af okkar hálfu að kalla til baka þann samning sem gerður hefur verið en okkur þykir hins vegar rétt, þegar menn guma sig af því að hafa náð einhverjum tilteknum árangri, að draga fram raunstöðuna eins og hún er.

Það stefnir sem sagt í það að á þessu ári verði hallinn í kringum 30 milljarða en ekki um 2–3 og að sú staða smitist síðan áfram yfir á næsta ár.

Ég get vel skilið að menn séu óþreyjufullir að fá frá nýrri ríkisstjórn langtímaáætlun í ríkisfjármálum en við verðum að áskilja okkur eitthvert lágmarkssvigrúm í tíma til að koma slíkri áætlun saman. Hún verður auðvitað kynnt samhliða því að fjárlagafrumvarpið verður lagt fram næsta haust.