142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[10:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar fréttir um þetta gat voru raktar á blaðamannafundi þeirra formanna stjórnarflokkanna í vikunni vakti athygli hversu lítið var í því. Að mestu leyti voru þar hefðbundnir þættir sem ríkisstjórn þarf alltaf að hafa áhyggjur af, framúrakstur og að menn þurfa auðvitað að hafa aga í ríkisrekstri. Það þýðir ekkert að kveinka sér undan því að bera þá stjórnunarábyrgð á ríkissjóði.

Varðandi síðan einstaka þætti og ný útgjöld þá er það náttúrlega þannig að verkin sýna merkin. Það er athugunarefni að ríkisstjórnin skuli hafa fyrir því að koma hingað inn með tillögur um lækkun á veiðileyfagjaldi á sama tíma og hún kvartar yfir því að þurfa að efna fyrirheit um gjaldfrjálsar tannlækningar barna. Það sýnir dapurlega forgangsröðun.

Ríkisstjórnin og fjármálaráðherrann geta ekki afsalað sér ábyrgð sinni. Hæstv. fjármálaráðherra getur ekki sagt eins og hann sagði á fréttamannafundinum í vikunni að hann væri búinn að tala við ráðherra um stöðuna. Það eru tveir mánuðir í að fjárlagafrumvarp verður lagt fram. Mun hann leggja fram hallalaus fjárlög eða ekki? Svar óskast.