142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hallalaus fjárlög.

[10:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að halda mig á svipuðum slóðum og vil gjarnan gefa hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra aðeins meiri tíma til að ræða þetta mál vegna þess einfaldlega að ég trúi því ekki að ríkisstjórnin ætli að leggja fram og afgreiða á þessu sumarþingi allmörg og stór mál sem afsala ríkissjóði miklum tekjum strax á þessu ári. Við erum komin með á borðin frumvörp sem þýða um 4 milljarða gat miðað við tekjuáætlunina eins og hún stendur og 10–20 milljarða á næsta ári, eigi áform um að leggja t.d. auðlegðarskatt af að ganga eftir, án þess að einhver áætlun liggi fyrir um hvernig ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma líti þá út.

Jú, maður skilur það að ný ríkisstjórn þurfi eitthvert svigrúm en hún hefði kannski átt að borða minna af pönnukökum og nota tímann til að vinna frá kosningum og fram að þessum degi. Ég minni á að sú ríkisstjórn sem tók við í maí 2009 lagði sína endurskoðuðu ríkisfjármálaáætlun fram í júní það ár (Gripið fram í.) og tengdi ráðstafanir sínar í ríkisfjármálum við þá áætlun. Það sem vekur manni ugg er ef menn byrja á öfugum enda, byrja á því að afsala ríkissjóði miklum tekjum eða taka á hann aukin útgjöld og ætla svo að fara að reyna að sauma saman ríkisfjármálaáætlun í framhaldinu. Væri ekki hyggilegra að hafa þetta í öfugri röð, leggja fyrst grunninn að ríkisfjármálunum og sjá svo hvaða svigrúm menn hafa varðandi tekjur og gjöld eða gera þetta að minnsta kosti samtímis?

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki mögulegt að hann geri þinginu, áður en það lýkur störfum í júní, að einhverju leyti að minnsta kosti grein fyrir mati ríkisstjórnarinnar á þróun ríkisfjármála til meðallangs tíma, hvernig markmiðinu um jákvæðan heildarjöfnuð verður viðhaldið á næsta ári sem er afar mikilvægt fyrir Ísland? Það verður okkur dýrt hvað varðar trúnað og traust á hagstjórninni og efnahagsmálunum (Forseti hringir.) ef það markmið fer fyrir borð. Nógu mikið gagnrýndi fyrrverandi stjórnarandstaða okkur fyrir að ná ekki hallalausum fjárlögum (Forseti hringir.) strax árið 2013. Ætlar hún ekki að reyna að gera það 2014?