142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hallalaus fjárlög.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel að það sé fullt tilefni til að taka svolítið djúpa umræðu um stöðu efnahagsmála og fagna tækifærinu til að ræða stöðuna hér í þingsal.

Það sem við sjáum þegar við horfum aftur í tímann er að töluvert miklu aðhaldi hefur verið beitt í ríkisfjármálunum. Mér finnst að kannski hafi verið gengið of langt á stofnkostnaðarhliðina og þá minna á reksturinn og honum dálítið hlíft. En það sem blasir við okkur er þetta: Við erum enn með ríkissjóð í halla vegna þess að ekki hefur tekist að skapa hagvöxt. Fyrstu aðgerðir þessarar ríkisstjórnar verða allar miðaðar að því að reyna að ýta undir hagvöxt, auka bjartsýni í hagkerfinu, fá menn sem eru tilbúnir að fara í fjárfestingar til að draga fjármuni upp úr skúffunum (Gripið fram í.) og slíka þætti sem munu smám saman skila sér í fjölgun starfa og nýjum fjárfestingum.

Hér er talað um að við í nýrri ríkisstjórn ætlum að afsala okkur tekjum. Ég segi: Fyrri ríkisstjórn hafði áskilið sér of stóran hlut í afkomu atvinnurekstrar í landinu, sérstaklega í sjávarútvegi. Væntingar um hlutdeild í afkomu greinarinnar voru einfaldlega óraunhæfar, svo óraunhæfar að við höfum fjölmörg dæmi um að menn hafi þurft að afsala sér til ríkisins öllum hagnaðinum af starfseminni. Þess vegna hafa svona margir lagt upp laupana og horfið úr greininni, sérstaklega minni aðilar og meðalstórir.

Varðandi auðlegðarskattinn, sem hv. þingmaður kom inn á, þá var það fyrri ríkisstjórn sem ákvað með lagasetningu að sá skattur yrði tímabundinn. Svo koma menn hingað upp og segja: Ef þið ætlið ekki að framlengja hann þá eruð þið að leggja hann af. Hvers vegna var skatturinn ekki einfaldlega lagður á ótímabundið ef menn sáu það fyrir sér að hann ætti að vara til nánustu framtíðar? Þetta er reyndar mjög stór tekjupóstur og í langtímaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar var ekki gert ráð fyrir neinum ráðstöfunum til að bregðast við þegar slíkir tímabundnir skattar mundu falla niður.