142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hallalaus fjárlög.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það má vel vera að það sé gamalkunnugt ráð hjá þeim sem eru nýteknir við að reyna að dekkja myndina. Ekkert slíkt vakir fyrir mér í það minnsta. Ég dreg hér fram raunsanna mynd. Ég gæti á móti sagt að það væri gamalkunnugt ráð hjá þeim sem eru nýhorfnir frá að reyna að fegra myndina. Ég held að þessi umræða skili okkur afskaplega skammt fram á veginn.

Staðreynd málsins er sú að það markmið, sem hv. þm. Árni Páll Árnason vék að hér áðan og skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli, að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálunum, verður mun meira krefjandi vegna stöðunnar en ætla hefði mátt eftir afgreiðslu fjárlaga undir lok síðasta árs. (ÁPÁ: … treysta þér til þess?) Við munum gera atlögu að því að ná heildarjöfnuði en ég tel að það verði gríðarlega krefjandi og miklum mun meira krefjandi verkefni en menn almennt hafa gert sér grein fyrir fram til þessa.