142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

launakjör kandídata á Landspítalanum.

[10:48]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Útskriftarárgangur læknakandídata sendi á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa því yfir við stjórn Landspítalans að þeir íhugi að ljúka kandídatsári sínu við aðra stofnun. Er þetta gert vegna langvarandi óánægju með aðbúnað og launakjör á sjúkrahúsinu.

Í yfirlýsingunni kemur fram að læknakandídatar hafi í mörg ár verið ein óánægðasta stéttin á Landspítalanum samkvæmt starfsumhverfiskönnun spítalans. Þar segir í fyrsta lagi að kjarasamningar hafi ekki verið virtir, ekki heldur hvíldartími sem festur er í lög og þá hafi yfirvinnu- og veikindadagar ekki verið greiddir.

Í öðru lagi sé aðbúnaði hvað varðar aðlögun og handleiðslu í starfi mjög ábótavant.

Í þriðja lagi hafi kandídatar og almennir læknar dregist mjög aftur úr í launaþróun háskólastétta með sambærilega menntun. Þeir eru með 340.734 kr. í grunnlaun eftir sex ára háskólanám.

Ekki verður sagt að Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, sýni málinu skilning þar sem hann í grein sinni í Fréttablaðinu frá 3. júní síðastliðinn lætur í veðri vaka að kandídatar séu ekki starfsmenn spítalans, standi ekki jafnfætis starfsmönnum í að leita réttar síns gagnvart spítalanum sem vinnuveitanda og Landspítalinn geti vel starfað án kandídata. Læknaráð Landspítalans er þessu ekki sammála og hefur hvatt stjórnvöld og yfirstjórn Landspítalans til að finna lausn á málum kandídata þegar í stað til að hægt verði að tryggja áframhaldandi óbreytta þjónustu spítalans og öryggi sjúklinga.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra geri sér grein fyrir alvarleika málsins. Fjöldi almennra lækna ætla sér ekki að flytja aftur heim eftir sérfræðinám vegna þeirra erfiðu starfsskilyrða sem þeim býðst hér á landi. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig hann hyggist beita sér í þeim málefnum unglækna sem hér um ræðir, hvort honum sé kunn staða mönnunar lækna eftir sérgreinum á Landspítalanum og hvernig horfur í mannaflaspám (Forseti hringir.) eru í því sambandi á næstu árum.