142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

launakjör kandídata á Landspítalanum.

[10:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Varðandi þennan ágreining starfsstéttar við framkvæmdastjórn spítalans treysti ég framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss til að greiða úr honum miðað við þau framlög og það svigrúm sem löggjöfin hefur veitt henni til að vinna úr slíkum ágreiningsefnum. Ég geri sömuleiðis kröfur til fulltrúa læknakandídata að þeir sýni skilning á þeirri stöðu sem uppi er. Þeir eiga óskoraðan rétt til að leita úrbóta í sínum málum og það veltur þá á því hvaða svigrúm við höfum til að mæta því. En það þjónar engum tilgangi í mínum huga, ef við viljum stofnuninni vel, að halda málinu í þeim ágreiningi og þeim farvegi sem það hefur farið í síðustu daga.