142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

gjaldfrjálsar tannlækningar.

[10:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfum hlustað undanfarna daga á hrakspár um útkomu ríkissjóðs og ríkisstjórnin sem lagði af stað með bjartsýni, kjark og þor er strax farin að beita úrtölum og sýna afar mikið kjarkleysi í því að takast á við þann vanda sem öllum mátti vera ljós og allir hafa þekkt á undanförnum árum og inn í nútíðina.

Þar hefur m.a. komið á óvart að menn þurfi hugsanlega að leggja fram fjármagn sem nemur 13 milljörðum sem löngu er búið að setja inn í fjárlög með viðvörun, á sama tíma og menn telja að ávallt hefði mátt leggja 20% af höfuðstól, greiða það út úr Íbúðalánasjóði með 140 milljarða framlagi. Mótsagnirnar eru slíkar fram og til baka.

Það er líka athyglisvert að tala um að hallinn á árinu geti orðið um 6 milljarðar á rekstrinum, þar af 1 milljarður vegna nýrra verkefna sem hafa komið til á árinu sem eru 0,2% af rekstri ríkissjóðs. Heildarhallinn yrði þá, ef þetta gengi eftir og ekkert yrði gripið inn í, um 1% af veltu ríkissjóðs. Mér er til efs að á síðustu 20 árum hafi menn verið langt innan við þá tölu. En hvernig bregst ríkisstjórnin við þessum vanda? Jú, með því að skerða tekjur. Þeir eru líka með hrakspár varðandi tekjustofnana og jafnvel þótt fjármálaráðuneytið skili skýrslu 28. júní, ef ég man rétt, eru þeir búnir að gefa út yfirlýsingu um að tekjuspá ársins muni ekki standast.

En tilefni þess að ég vil eiga hér orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra er að ræða það sem hefur komið fram, að ráðast eigi í að skera hugsanlega niður eitthvað af þeim viðbótarþáttum sem hafa komið inn eins og gjaldfrjálsar tannlækningar sem er nýtt mál. Ég hef að vísu heyrt yfirlýsingar hæstv. ráðherra í morgun um að hann ætli ekki að gera það en ákvað eftir sem áður að halda fyrirspurninni til haga vegna þess að ég held að það sé afar mikilvægt að sú yfirlýsing sem hann gaf í fjölmiðlum í morgun komi fram á þingi. Ég treysti á að hann muni gefa börnum og unglingum þessa lands og barnafjölskyldum (Forseti hringir.) það að þessi áform gangi eftir og raunar er þetta átak byrjað því að það tók gildi 15. maí síðastliðinn.