142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hvalaskoðun.

[11:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að sú grein sem hún nefnir, hvalaskoðun, er ört vaxandi innan þeirrar gríðarlegu mikilvægu atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er. Við höfum horft á mikla fjölgun ferðamanna hingað og mikil tækifæri sem þar eru að skapast.

Hvað varðar það atriði sem hv. þingmaður spyr um, samspilið á milli hvalveiða og hvalaskoðunar, er ég þeirrar skoðunar að huga þurfi vel að jafnvægi þar, sem ég tel að geti vel átt sér stað og að þessar tvær greinar geti vel farið saman.

Varðandi þá ákvörðun fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra að breyta reglum skömmu fyrir upphafsdag hvalveiðanna — og ég get t.d. nefnt aðra aðgerð síðustu ríkisstjórnar sem var fyrirvaralaus hækkun á virðisaukaskatti á gistingu — er ég þeirrar skoðunar að aðgerðir sem breyta rekstrarumhverfi og rekstraráætlunum með stuttum fyrirvara og eru ekki í samráði við atvinnulífið séu ekki góðar.

Ég hef fengið Samtök ferðaþjónustunnar til mín á fund út af ýmsum atriðum og þetta var vissulega eitt af þeim atriðum sem þau fóru yfir og höfðu áhyggjur af á þeim fundi, þ.e. afturköllun reglugerðarinnar. Ég sagði við þau að ég hefði mestar áhyggjur af því að þetta væri ásteytingssteinn á milli þessara tveggja atvinnugreina. Ef svo fer að hæstv. sjávarútvegsráðherra breyti þessu aftur legg ég mikla áherslu á að samhliða verði komið á öflugu samtali á milli þessara tveggja atvinnugreina þannig að á þessu verði hægt að finna varanlega lausn.