142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

hvalaskoðun.

[11:06]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að öll þessi aukning í hvalaskoðun hefur átt sér stað samhliða hvalveiðum hin síðari ár þannig að sú forsenda segir mér að þetta tvennt geti farið saman. Það er það sem ég legg áherslu á. Við þurfum hins vegar að taka þetta samtal og finna jafnvægi þarna á milli. Rétt er að það var nefnd að störfum sem lagði þetta til og það má hugsa sér að taka það samtal víðar vegna þess að ég hef heyrt ákveðna gagnrýni á skipan þeirrar nefndar.

Hins vegar vil ég leggja mesta áherslu á stuðning við atvinnulífið, og það er kannski munurinn á þeirri ríkisstjórn sem nú starfar og þeirri fyrrverandi sem var sífellt að etja atvinnugreinum saman. Hv. þingmaður spyr: Ætlar hæstv. ráðherra ekki að taka stöðu með þessari atvinnugrein, og þá væntanlega gegn annarri? Ég vil ekki gera það. (Forseti hringir.) Ég er ráðherra ferðamála, ég er ráðherra verslunar og þjónustu, iðnaðar og orkunýtingar. (Forseti hringir.) Ég ætla að styðja við bakið á atvinnulífinu en ég tek ekki þátt í því að stilla upp einni atvinnugrein á móti annarri.