142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna, hún er mikilvæg. Á sama tíma vil ég óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju með starfið. Ég var sjálf í því og veit hversu merkilegt það er og þau verkefni sem þar eru. Það var þess vegna sem ég kallaði ráðuneytið mjög oft ráðuneyti tækifæranna af því að það eru fjölmörg tækifæri á þeim sviðum sem hæstv. ráðherra fer með.

Það skiptir mig miklu máli að við horfum nú til þess að búa til mjög þétt vaxtarplan fyrir Ísland inn í langa framtíð sem sátt getur skapast um. Við reyndum á síðasta kjörtímabili að undirbyggja þann vöxt með því að ráðast í stefnumörkun á mjög mörgum sviðum, eins og til dæmis stefnumörkun um orkumál og stefnumörkun um erlenda fjárfestingu. Ég nefni líka samráðsvettvang um aukna hagsæld sem nú er að störfum. Allt er það þverpólitískt og þverfaglegt. Einnig er stefnumörkun um hönnunarmál á Íslandi og stefnumörkun um skapandi greinar. Allt er það til og var reynt að vanda þannig til verka að það gæti staðið inn í langa framtíð og að menn gætu nýtt það óháð því úr hvaða kimum pólitíkur þeir kæmu.

Ég vildi bara nefna það hér og vonast til þess að hæstv. ráðherra nýti það í þeirri vinnu sem fram undan er hjá henni vegna þess að í orðum hennar fólst að hún ætli að styðja við fjölbreytta atvinnuuppbyggingu og ég vonast til að sú stefnumörkun sem við réðumst í geti nýst henni í þeirri vinnu sem fram undan er.

Aðeins nokkrar spurningar, vegna þess að ég hef áhyggjur af nokkrum verkfærum sem til eru í dag og vil spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til þeirra.

Í fyrsta lagi: Mun hæstv. ráðherra ekki standa áfram vörð um endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar í fyrirtækjum? Það skiptir máli.

Í öðru lagi hef ég áhyggjur af Tækniþróunarsjóði og auknu framlagi til hans þegar menn ætla að fara að afnema eða lækka hér veiðigjöld.

Í þriðja lagi spyr ég hvort ekki sé ætlunin að halda áfram með markaðsátakið Inspired by Iceland og Ísland allt árið.