142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg. Ég held að í sjálfu sér sé enginn á móti stóriðju en ég held að deilan snúist kannski fyrst og fremst um það á hvaða forsendum til hennar er efnt og hvernig til hennar stofnað. Ég held að við hljótum öll að vera að færast í þá átt að verða sammála formanni Sambands ungra sjálfstæðismanna, að stóriðja á forsendum stórfelldrar aðkomu ríkisvaldsins með alls konar skattaívilnunum og ívilnunum í formi vegaframkvæmda hljóti að heyra sögunni til.

Mig langar að vitna í grein Davíðs Þorlákssonar, formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, sem hann birti fyrir nokkru í Morgunblaðinu þar sem hann talar einfaldlega um að vindar markaðshyggjunnar blási því miður ekki með miklum þrótti um stóriðjuna. Ég leyfi mér að vitna beint í grein hans, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi sér hið opinbera stóriðjunni fyrir ódýrri orku. Raforkuver eru byggð með lánum sem skattgreiðendur ábyrgjast í gegnum ríkissjóð og sveitarfélög. Þetta felur raunverulegan fjármagnskostnað, því að ef illa fer er hægt að borga af lánunum með því að hækka skatta á borgarana. Þessi lági fjármagnskostnaður skilar sér svo í lægra orkuverði til stóriðjunnar. Með öðrum orðum eru skattgreiðendur settir að veði til að niðurgreiða orku til stóriðjunnar.

Í öðru lagi nýtur stóriðja sérstakrar skattafyrirgreiðslu. Fyrirtækin þurfa jafnan ekki að greiða jafn háan tekjuskatt og fasteignagjöld og þeim er jafnframt lofað að skattarnir þeirra fari ekki yfir tiltekin mörk. Í þriðja lagi krefst stóriðjan þess að ríki og sveitarfélög leggi í ýmsan kostnað til að þjónusta stóriðjuna, svo sem vegaframkvæmdir, með ærnum tilkostnaði. […]

Þetta fyrirkomulag í atvinnuuppbyggingu hljómar kunnuglega og er nær samblandi af áætlunarbúskap og kjördæmapoti en markaðsbúskap.“

Þetta segir Davíð Þorláksson í grein sinni. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um þetta. Það að efna hér til atvinnuuppbyggingar (Forseti hringir.) með stórfelldri aðkomu ríkisvaldsins á að heyra sögunni til.