142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að opinber umræða sé sem víðast um heildstæða atvinnustefnu, auðlindastefnu og alla þætti orkunýtingarstefnu og helst í samhengi við þá framtíðarsýn og þau markmið um eflingu atvinnulífs um allt land sem sett eru fram í áætluninni Ísland 2020 sem stendur fyrir sókn og atvinnuuppbyggingu landsvæða í víðum skilningi.

Í stefnu Samfylkingarinnar, í kafla um sóknarfæri og sérstöðu í atvinnumálum, er fjallað um sóknarfæri í sterkum atvinnugreinum þar sem reynsla og þekking er þegar til staðar því að þar búa fjölbreyttir möguleikar. Matvælageirinn með sjávarútveg og landbúnað sem bakhjarla, orkugeirinn og tengdur iðnaður, líf- og heilsutækni, skapandi greinar og ferðaþjónusta eru dæmi um atvinnugreinar sem eiga mikil sóknarfæri. En vöxtur margra hefðbundinna greina er takmarkaður meðal annars vegna þolmarka auðlindanýtingar eða landnýtingar og því þurfum við að einbeita okkur að virðisaukningu með virkjun hugvits sem er reyndar óþrjótandi auðlind. Sóknarfæri verða ekki síst þar sem hefðbundin skil á milli atvinnugreina eru brotin upp. Vöruþróun og tækninýjungar sprottnar úr sjávarútveginum hafa skapað ný og öflug fyrirtæki. Orkugeirinn er uppspretta mikillar þekkingar og nýsköpunar sem getur orðið mikilvæg útflutningsgrein á komandi árum. Matvælagreinin, öflugt heilbrigðiskerfi og ferðaþjónusta leggja grunn að heilsu og lífsstílstengdri ferðaþjónustu.

Samfylkingin leggur áherslu á græna atvinnustarfsemi í anda þeirra tillagna sem samþykktar hafa verið um eflingu græna hagkerfisins. Hrein ímynd landsins og umhverfisvæn orka er aðdráttarafl fyrir græna fjárfestingu í atvinnulífinu (Forseti hringir.) og það er brýnt að nýta þessi tækifæri vel.