142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

atvinnu- og orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það kom einu sinni fyrir í mínum gamla heimabæ að þjálfari ÍBV ákvað að tefla frekar fram tíu mönnum en ellefu til þess að ljúka ákveðnum leik sem gekk illa. Hann tók sem sagt einn mann út af vellinum og setti engan inn í staðinn. Mér datt þessi saga í hug þegar ég sá ráðherrakapal Framsóknarflokksins birtast. Af því að ég er bjartsýnismaður má kannski leika sér með að segja að ef til vill sé betra að vera ekki með neinn í umhverfisráðuneytinu en að vera með framsóknarmann, en það er nú sagt í gríni.

Það hefur hingað til verið litið á það sem fullt starf að vera umhverfisráðherra og auðvitað vekur þessi áhersla ríkisstjórnarinnar ákveðnar áhyggjur. Ég vona að ríkisstjórnin taki tillit til sjónarmiða eins og formaður ungra sjálfstæðismanna lýsti í þeirri grein sem ég vitnaði til áðan.

Besta atvinnustefnan er að auka verðmæti, auka framleiðni. Við höfum séð og fengið skýrslur um það að við séum með lága framleiðni og við þurfum að auka verðmæti útflutningsafurða. Við þurfum að auka samkeppni, við þurfum að fella niður viðskiptahindranir og tolla. Það er besta leiðin til þess að búa til fjölbreytt atvinnulíf. Það að vera með ríkisvaldið og með ívilnanir, skattaívilnanir, vegaframkvæmdir, er gamaldags atvinnuuppbygging. Það er gríðarlegur kostnaður sem felst í slíkri atvinnuuppbyggingu og hún er ekki á markaðslegum og viðskiptalegum forsendum. Ástæðan fyrir því að mönnum hefur ekki gengið vel, til dæmis með að ljúka Helguvík, er að þar hafa verið gefnar út yfirlýsingar um sölu á raforku á lágu verði sem orkufyrirtækin hafa ekki verið tilbúin til að láta ganga eftir.

Það er atvinnustefna sem mun ekki þjóna hagsmunum okkar Íslendinga til langs tíma og við verðum að fara að temja okkur að horfa á stóru myndina og horfa til langs tíma í þeim efnum.