142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu stutta andsvari vil ég eingöngu beina athyglinni að þeirri breytingu sem er að verða á krónutölu í þorskígildum, annars vegar í botnfiski og hins vegar í uppsjávarfiski, og spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna fylgja þau gögn ekki með frumvarpinu sem fylgiskjöl? Hvers vegna er veiðigjald á botnfiskstegundum lækkað um 70%, eins og er boðað hér, og veiðigjöld á uppsjávarfiski hækkuð um 40% á sama tíma?

Hæstv. ráðherra ræddi um nokkrar tegundir sem er óvissa um og fær hér heimild til þess að fresta greiðslu á veiðigjöldum á tegundum sem er byrjað að veiða seint á fiskveiðiárinu. Sú óvissa á við um loðnu, makríl og kolmunna og í raun og veru má spyrja hvers vegna það er þá ekki sett inn líka.

Virðulegi forseti. Aðalspurning mín er að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvers vegna 70% lækkun sé á botnfiskstegundunum og 40% hækkun á uppsjávarfiski. Eins og við höfum talað um og hæstv. ráðherra hefur talað um er kannski mesti ókosturinn við álagningu veiðigjalda eða lög um veiðigjöld, sem voru sett á þeim ágætisdegi 26. júní í fyrra, að þau byggja á gömlum gögnum. Það er alveg rétt og það eru hlutir sem ég ræði kannski betur ef ég kemst í ræðu á eftir.