142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari vil ég segja að ég mun ef ég get komist hér í ræðu á eftir — sem ég er kannski ekki alveg viss um að ég geri vegna þess að ég þarf að fara í flug austur á land til að fagna með Norðfirðingum því að í dag verður skrifað undir verksamning um framkvæmd Norðfjarðarganga og ég ætla ekki að sleppa því að vera á þeirri hátíðarstundu í Neskaupstað.

Ef ég kæmist í ræðu á eftir hefði ég viljað útskýra og setja fram þau sjónarmið sem ég hef haft um álagningu veiðigjalds. Ég ræddi tillögu mína á síðasta kjörtímabili en ekki var áhugi fyrir því að taka það fyrirkomulag upp, þ.e. að nálgast málið út frá því að vera með svokallað staðgreiðsluveiðigjald sem byggt sé á samtímaskattagögnum og gögnum sem tekin eru frá degi til dags og sjávarútvegsfyrirtæki vinna með á hverjum einasta degi. Þau skila svo gögnum sínum til ríkisskattstjóra sem eru að mínu mati bestu gögn til þess að leggja á veiðileyfagjald.

Síðan getum við haldið uppi umræðu um það sem var ágreiningur um á milli okkar, fyrrverandi stjórnarsinna og fyrrverandi stjórnarandstöðu, sem nú hefur snúist við, þ.e. að vega og meta hvað er hóflegt veiðileyfagjald. Landsfundur Framsóknarflokksins samþykkti í fyrra að leggja á hóflegt veiðileyfagjald. Þá er það bara spurningin: Eru það 12 milljarðar eða eru það 6 milljarðar að mati þeirra eða hvað?

Varðandi breytingarnar á gjaldinu á botnfiskinn versus uppsjávarfiskinn þá er athyglisvert að það sé gert, en það er eins og ráðherrann sagði; það á eftir að vinna það betur í nefndinni.

Mér sýnist að botnfisksgjaldið muni ekki gefa meira en um 700 milljónir á næsta fiskveiðiári. Af hverju segi ég það? Jú, virðulegi forseti, ég reikna með að megnið af frítekjumarkinu og lækkun skulda vegna kaupa á aflahlutdeildum komi frá botnfiskstegundum. Þar með, þegar ég reikna það út sem hér er, kæmu ekki nema 700 milljónir frá botnfiskinum á móti því að (Forseti hringir.) áætlað er að fá um 4,2 milljarða af uppsjávarfiskinum með þeim fyrirvörum sem hæstv. ráðherra talaði um, (Forseti hringir.) sem voru um úthlutaðan afla.