142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um síðustu spurningu hv. þm. Kristjáns L. Möllers er það að segja að í fylgiskjali fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er álagningin á sérstaka gjaldinu á botnfiskinn metin upp á tæpa 3 milljarða en ekki 700 milljónir, svo að það sé nú alveg skýrt.

Aðeins til frekari útskýringar á svari við fyrri spurningu hv. þingmanns er það þannig að vísitala botnfisksveiða hefur farið lækkandi; hún lækkar um 6,2% á sama tíma og vísitala í uppsjávargeiranum hefur hækkað um 25,6%. Það er því mjög ólík þróun í þessum tveimur þáttum. Það kemur fram í þeim útreikningum sem hér liggja fyrir. Ég ítreka einnig að ekki er gott að bera það saman við þær tölur sem eru á yfirstandandi fiskveiðiári þannig að ekki er alveg hægt að átta sig á því hvaðan forsendur koma til þeirrar álagningar. Það er hins vegar ljóst að sú álagning hefur lagst með mjög mismunandi hætti á þessa tvo útgerðarflokka.

Varðandi stefnu ríkisstjórnarflokkanna, sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, þá er það rétt hjá hv. þingmanni að báðir stjórnarflokkar — líka Framsóknarflokkurinn — hafa haft það á stefnuskrá sinni að lögð séu á veiðigjöld. Það var reyndar í tíð þeirra flokka sem það var lagt á upphaflega, og engin breyting er á því. Enda erum við ekki að leggja til að leggja af sérstakt veiðigjald. Við segjum einfaldlega: Það þarf að vera hóflegt til að greinin geti staðið undir því að fara í fjárfestingar, að fara í nýsköpun. Það er það sem er mikilvægast fyrir landið, bæði strax í ár en líka á næstu árum, að við byggjum upp þær atvinnugreinar og hliðargreinar hinna hefðbundnu atvinnugreina sem skila okkur gríðarlega miklu til þjóðarbúsins þegar þannig tekst til og þegar við göngum ekki of langt í skattlagningunni.