142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ólíkt því sem var, a.m.k. þegar síðasta ríkisstjórn lauk starfi sínu, eru engar deilur í núverandi ríkisstjórn, ekki um nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í: Noh!) (LRM: Það veit ekki á gott.) Hér er sjávarútvegsráðherra mættur til að kynna frumvarp um veiðigjöld og vill gjarnan tala um það og vera hér til að útskýra málin í dag, hlusta á áhyggjur þingmanna og ábendingar, hefur lagt málið fram og vill gjarnan fá að heyra mat einstakra þingmanna á því. Ég held að við ættum ekki að blanda öðrum málum þar inn í.

Það er hins vegar rangt hjá hv. þingmanni, enn og aftur, en var hins vegar grundvöllur þeirra laga sem hér eru — álagning í þessari grein var meðaltalsleg yfir alla atvinnugreinina aftur í tímann, sem þýðir að þau fyrirtæki sem eru undir meðaltalinu verða fyrir verulega miklum áhrifum ef gjaldið er of hátt. Það er sú staðreynd sem við höfum þegar séð á fyrsta ári sem þessi tilraun var gerð, hún gekk einfaldlega of langt fyrir einstaka útgerðarflokka, fyrir einstök fyrirtæki, og við því erum við að bregðast hér á þann veg sem fram kemur í frumvarpinu en einnig að tryggja ríkissjóði ákveðnar tekjur sem ella hefðu ekki orðið neinar af sérstöku veiðigjaldi ef við hefðum ekki brugðist við. Lögin hefðu aldrei getað orðið framkvæmanleg og við hefðum orðið að fella þau úr gildi.