142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan ætla ég að reyna að komast í örstutta ræðu um það frumvarp sem hér er rætt, þ.e. breytingu á veiðigjöldum. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra um það hann sagði áðan, aðalókosturinn við veiðigjöldin, lögin eins og þau eru í dag, er að þau eru lögð á að meðaltali.

Ef við tækjum skattstofninn á Íslendinga allra og fyndum út meðaltal og deildum því svo út kæmi það auðvitað þannig út að þeir sem lægst hafa launin greiddu hærri skatta og þeir sem hæstu launin hafa borga þá lægri skatta, sem sagt ef við tækjum þetta víðfræga meðaltal. Það er kannski aðalókosturinn. Við vitum að um 80% af veiðigjöldunum áttu að koma frá 25 stærstu fyrirtækjum landsins en afgangurinn dreifðist á alla hina, m.a. aðila með lítinn kvóta, einyrkja, sem ættu í vandræðum með að greiða gjaldið þó svo að sett væru inn ákvæði við vinnslu frumvarpsins í atvinnuveganefnd, þar til frumvarpið varð að lögum, sem tóku á mjög skuldsettum útgerðum vegna kvótakaupa undanfarinna ára þar sem reiknaður var svokallaður afsláttur þar á.

Alveg eins og varðandi meðaltalið vil ég líka vera hreinskilinn og segja: Mér finnst of langt gengið í lækkun veiðigjalds eins og það er sett fram hér. Ég ætla þó að hafa þann fyrirvara á að ráðuneyti og aðrir komi í atvinnuveganefnd og sýni okkur þá útreikninga sem þeir byggja vinnu sína á. Það sem ég sagði áðan er dálítið sérstakt og rauð ljós kvikna, þ.e. hvers vegna 70% lækkun er á botnfiskinum en 40% hækkun er á uppsjávarfiskinum. Það er það sem við munum ræða í atvinnuveganefnd og ég bíð eftir því. En mér finnst við fyrstu sýn að allt of langt sé gengið í lækkun vegna þess að ég hef alltaf litið svo á að álagning hóflegs veiðigjalds sé stóri lykillinn að því að búa til meiri sátt um sjávarútveg á Íslandi. Því miður tókst ekki að klára ýmsar breytingar sem gera þurfti í framhaldinu á fiskveiðistjórnarkerfinu, en þar var mikill ágreiningur, það er vandamálið.

Virðulegi forseti. Á þeim örfáu mínútum sem ég hef til að ræða þetta ætla ég að segja að vandamálið við núverandi álagningu er, eins og á svo mörgum stöðum í þjóðfélaginu, að stuðst er við allt of gömul gögn, tveggja ára gömul gögn, skattframtöl. Þegar Hagstofan fer að vinna upp gögn eru þau allt of gömul. Þar af leiðandi þarf að notast við framreikninga á vísitölu. Ef við værum með ári yngri gögn værum við miklu betur stödd. Þá værum við sem næst raunafkomu álagningarárið. Þá væru sem minnst frávik frá skattframtölum og um leið mundi flækjustigið og kostnaður minnka mjög. Það mundi um leið auðvelda eftirlit og hindra undanskot.

Ég sagði áðan að eftir vinnu mína sem formaður atvinnuveganefndar við veiðigjöldin og fiskveiðistjórnarbreytingarnar í fyrra fór ég að skoða málið betur og leitaði mér aðstoðar hjá mér færari mönnum, endurskoðendum og lögfræðingum. Skoðun mín var sú að hægt væri að leggja veiðigjaldið á með einfaldari hætti og hafa það einfaldara í framkvæmd þar sem tekið yrði tillit til þess að tiltekið hlutfall af tekjum og afkomu kæmi inn. Þá mundi ónákvæmni gjaldsins á greinina í heild hverfa um leið og ársreikningar og skattframtöl ákvarða álagninguna, gjaldstofninn og álagninguna. Þá er bara áætlað hvað á að greiða, alveg eins og hjá almenningi; annaðhvort er búið að greiða of mikið eða of lítið þegar álagning hefur átt sér stað og þá skuldar aðili fé eða fær eitthvað til baka. Álagningin yrði sem sagt alveg eins og við önnur opinber gjöld.

Ég var á þeirri skoðun að við ættum að nota þrjá stofna til álagningar veiðigjalds: Í fyrsta lagi svokallað veltuframlag, sem væri 1% af heildartekjum veiða og vinnslu án nokkurs tillits til kostnaðar. Í öðru lagi gjaldstofn sem mundi heita afkomuálag, sem væri reiknað út frá rekstrarhagnaði fyrir fjármagnskostnað eða svokallað EBIT, ekki EBITDA heldur EBIT. Þá væri breytilegur gjaldstofn vegna sveiflna í afkomu og sett yrði inn stigminnkandi hlutfall fjármagnsgjalda frádráttarbær í fjögur ár í líkingu við það sem tókst að setja inn sem afslátt hjá skuldsettum útgerðum vegna kvótakaupa með sólarlagsákvæði. Síðan yrði þriðji gjaldstofninn, svokölluð stoðkvöð, sem væri hið núverandi almenna veiðigjald og því væri varið til stofnkerfis sjávarútvegs.

Virðulegi forseti. Ég hefði viljað gefa mér tíma til að fara betur í málin núna en það gefst betri tími í atvinnuveganefnd bæði til þess að fá að útskýra þessa leið og fara í gegnum hana. En það sem ég segi aðallega hvað þetta varðar, og þá á það ekki bara við um álagningu veiðigjalda; það er líka komið fram frumvarp á Alþingi frá hæstv. forsætisráðherra um heimild til Hagstofu til að eiga upplýsingar um skuldastöðu almennings. Ríkisstjórnin sem sat 2007–2009 hafði ekki slíkt í höndum en fékk leyfi hjá Persónuvernd til að láta vinna það. Við fengum leyfi í þáverandi ríkisstjórn til að skoða það nokkrum sinnum en það leyfi Persónuverndar var háð því að öllum þeim gögnum yrði svo eytt, því miður.

Nú tek ég skýrt fram, virðulegi forseti, að ég er ekki að tala um að halda úti svona gögnum og gagnabönkum sem eru rekjanlegir. Nei, það er eingöngu hugsað til þess að það sé til í hagsögunni, að það sé til hjá einhverri opinberri stofnun, að hægt sé að fá upplýsingar um skuldastöðu, hvernig skuldirnar skiptast í erlend og innlend lán, lán vegna bílakaupa og annars o.s.frv. En þessu þurfti sem sagt að eyða.

Af hverju segi ég það, virðulegi forseti? Jú, vegna þess að við álagningu veiðigjaldsins komumst við að því að þau gögn sem unnið er út frá, þ.e. reikningsskil til Hagstofu, sem byggjast á tveggja ára gömlum gögnum, eru bara ekki viðunandi í nútímasamfélagi. Þetta á að gera frá degi til dags. Og með þeirri aðferð sem ég hef tæpt á hér og mun sýna betur í atvinnuveganefnd, er hægt að gera það.

Við getum bara tekið sem dæmi: Komi frystitogari að landi og landi afla fyrir 200 milljónir þá kemur sérstaka veiðigjaldið til greiðslu út frá þessum 200 milljónum tveimur til þremur mánuðum síðar. Komi togarinn hins vegar úr næsta túr þar sem hann hefur bara fiskað fyrir 150 milljónir, hann er með jafnmikinn afla og síðast en söluverðið hefur lækkað um 50 milljónir, þá lækkar að sjálfsögðu veiðigjaldið strax og sama á auðvitað við ef það hækkar. Þannig er strax tekið á þeim sveiflum sem eru svo mikið í greininni. Grundvallaratriðið í þeirri hugmynd sem ég set hér fram er að þetta er allt saman gert með smávægilegri viðbót við þau gögn sem sjávarútvegurinn skilar til ríkisskattstjóra í hverjum mánuði og notar til að borga annan hvern mánuð. Það er sú aðferð sem ég hefði viljað kynna betur og fá betra tækifæri til að skýra og vonandi gefst færi til þess í nefndinni.

Ég ítreka að mér finnst fulllangt gengið í lækkun á botnfiskinum og hækkun í uppsjávarfiskinum. Ég hef þann fyrirvara á að ég þarf að heyra frekari rök fyrir þessari ákvörðun. Mér finnst líka rétt, svo það komi alveg skýrt fram, að breyta álagningunni þannig að hún sé ekki í prósentu á næsta ári heldur í krónutölu, eins og hér er lagt til og eins og við gerðum sem lögðum veiðigjaldið á í fyrra. Er ég þá ekki að mæla með þeirri lækkun, eins og ég hef margoft sagt, sem boðuð er á krónutölunni, en krónutalan sem álagning er framlengd um eitt ár, þ.e. bráðabirgðaákvæðið, sem er rétt að mínu mati og alveg sérstaklega út frá því ákvæði stjórnarskrárinnar að skattlagning Alþingis verður að vera mjög skýr. Ég tel hana ekki skýra með því að setja hana sem prósentu á óljósan tekjustofn. Hann er betri og hann er klár á miðað við stjórnarskrá um skattlagningarvald Alþingis með því að setja þetta í fasta krónutölu þó svo að næst megi þá e.t.v. deila um það hvernig finna á út þorskígildi.

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég ætla að fara á þá hátíð sem er austur í Neskaupstað í dag þegar skrifað verður undir verksamning við framkvæmd Norðfjarðarganga verð ég eiginlega að fá að nýta mér það sem verið hefur heiðursmannasamkomulag um jómfrúrræður, þ.e. að andsvör eru ekki leyfð að þessu sinni.