142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég stend við það að aðrar aðferðir hefðu verið miklu skilvirkari ef menn hefðu viljað ýta þessum stuðningi sérstaklega til litlu og meðalstóru fyrirtækjanna og setja einfaldlega rýmri afsláttarreglur sem tækju mið af því hver staða veiðiheimildanna væri. Stóru tölurnar í þessu, stóru ávísanirnar hér, fara til stóru bolfiskveiðifyrirtækjanna, það er algjörlega á hreinu.

Ástæða þess að minni munur var á sérstökum veiðigjöldum þegar menn settust yfir reikninga í þeim efnum á fyrri hluta árs 2012 var að þá var minni afkomumunur milli bolfiskveiða og uppsjávarveiða, það er alveg ljóst. Síðan hefur dregið þar í sundur og er að gera jafnvel enn. Það skýrir auðvitað að hluta til að búast mátti við því að umtalsvert meiri munur yrði á sérstökum veiðigjöldum, annars vegar á uppsjávarveiðar núna og hins vegar á bolfiskveiðar. Það er eðlilegt því að afkoman hefur einfaldlega þróast þannig og hún var að þróast þannig á síðasta ári. Þegar menn voru með þessa reikninga var talið að nokkurn veginn sanngjarn munur þarna á væru kannski 5 krónur eða svo, 4–6 krónur, (Forseti hringir.) eins og niðurstaðan varð að lokum sumarið 2012.