142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það varð mikil endurnýjun á Alþingi eftir kosningar og er það mjög ánægjulegt. En það veldur líka því að það eru mjög margir alþingismenn hér sem þekkja ekki sögu síðasta kjörtímabils jafn ítarlega og við sem vorum hérna. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við ræðum veiðigjaldið í samhengi við fjárfestingaráætlunina því að henni var ætlað að byggja upp innviði fyrir íslenskar byggðir og atvinnulíf og henni var líka ætlað að fjármagna inn í samkeppnissjóðina í atvinnulífinu. Veiðigjaldið átti því að nota í mjög byggðatengdum tilgangi. Við vorum mjög stolt af því, þingmenn sem studdum síðustu ríkisstjórn, að fara í svo metnaðarfulla aðgerð á þessum erfiðu tímum, en veiðigjaldið var ein af forsendum þess.

Ég vil því heyra hvort hv. þingmaður telji að verið sé að víkja frá stefnu byggðaþróunar með þessu.