142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vandinn er sá að við höfum litlar upplýsingar um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst þá bregðast við þessu. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, að að uppistöðu til er fjármununum í fjárfestingaráætluninni ráðstafað í samgöngur, í innviði, í skapandi greinar, uppbyggingu í ferðaþjónustu og í það að stórefla rannsóknar- og samkeppnissjóði á sviði tækni og vísinda. Allt eru það verkefni sem maður bindur vonir við að fái að halda áfram, sóknaráætlanir landshlutanna og hvað það nú er.

Þarna er vísað á tekjur annars vegar, einkum af sérstökum veiðigjöldum eða viðbótarauðlindarentu á meðan árferðið helst svona gott í sjávarútveginum og hins vegar mögulegan hagnað, arðgreiðslur og söluhagnað frá fjármálastofnunum. Þannig er sagan í grófum dráttum.

Ég sæi engar ástæður til þess að hafa áhyggjur af þeim hluta fjárfestingaráætlunarinnar þar sem menn horfðu til tekna af veiðigjöldum. Afkoma sjávarútvegsins hefur einfaldlega ekki breyst þannig að ástæða sé til að veita þar mikinn afslátt af. Viðbótartekjurnar, sem kannski glitti í samkvæmt lögunum, hefðu e.t.v. ekki skilað sér í eins miklum (Forseti hringir.) mæli og þar lá fyrir. En að verja u.þ.b. núverandi tekjur tel ég enga goðgá.