142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er ekki mikill söknuður almennt í atvinnulífinu eftir síðustu ríkisstjórn og ég held að það nái reyndar langt út fyrir hennar raðir.

Það var einnig áhugavert að heyra hv. þingmann staðfesta að þetta er mjög óþroskuð aðferðafræði sem verið er að vinna hér eftir, það á eftir að þróa hana, og að þetta sé mjög erfitt fyrir ákveðin útgerðarform, reyndar það erfitt að það gæti ekki gengið óbreytt áfram.

Sanngjörn skattlagning og ofurskattlagning, það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þingmanni það að leiðir til þess að menn fara að gullhúða handriðið. Það er einmitt sanngjörn skattlagning sem leiðir til þess að menn gera það ekki og menn eru sáttir við að borga þá skatta. Það er auðvitað sú aðferðafræði sem þessi ríkisstjórn ætlar að vinna eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort álagningin almennt í skattlagningu eða í auðlindarentu, skulum við segja, eigi að taka mið af stærð fyrirtækja eða afkomu þeirra og hvort það eigi eingöngu almennt að greiða auðlindarentu hjá stórum fyrirtækjum en ekki litlum. (Forseti hringir.) Við skulum horfa til þess að við færum auðlindarentu mögulega yfir í aðrar atvinnugreinar eins og ferðaþjónustu. Eru þá eingöngu stór fyrirtæki sem má innheimta af þar (Forseti hringir.) og ekki lítil?