142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er líka gamalt máltæki sem segir: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og ég held að núverandi ríkisstjórn ætti að ganga hægt um gleðinnar dyr. Það er ekkert víst að hún hafi óskaplega langan tíma í þessu sjálfbirgingslega andrúmslofti sem hún hefur búið sér til. Við skulum bara bíða og sjá hversu mikið verður fagnað yfir henni eftir hálft ár eða ár.

Varðandi auðlindarentu og lítil og stór fyrirtæki, nei, að sjálfsögðu er það ekki grunnhugsunin. Hún er sú að afmarka rentuna og það á að vera á jafnræðisgrundvelli gagnvart rekstrarformum og stærð fyrirtækja að breyttu breytanda. En það geta auðvitað verið lögmæt sjónarmið sem ganga út á það að leyfa vissan einingafrádrátt. Maður getur litið svo á að hverri einingu fylgi viss grunnkostnaður sem sé eðlilegt að sé dreginn frá og sem hverfur svo og hefur minna og minna vægi eftir því sem fyrirtækin eru stærri.

Auðvitað er líka sú hugsun að þeim mun stærri hlutdeild í nýtingu hinnar afmörkuðu auðlindar (Forseti hringir.) sem menn hafa, þeim mun meiri sé framlegðin og þeim mun meira sé eðlilegt að þeir geti lagt af mörkun. Það er því ekki hægt að segja að þetta sé bara já eða nei, svart eða hvítt.