142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sérstakt tækifæri að fá að spyrja fyrrverandi atvinnuvegaráðherra og fjármálaráðherra einmitt út í þessa veiðigjaldabreytingu. Annars vegar er talað um að markmiðið sé að verja litlu og meðalstóru fyrirtækin, ræðumaður hefur aðeins komið inn á það, en hins vegar hefur verið bent á að þetta sé ekki framkvæmanlegt.

Þetta snýst um tvennt, auðlindarentu og tekjuöflun eins og hér hefur komið fram. Við erum að beita sanngirnisreglu um það að þjóðin fái rentu af auðlindum sínum og síðan fái ríkissjóður tekjur.

Mig langar aðeins að heyra skoðanir hv. þingmanns á annars vegar tekjuafkomu greinarinnar á sl. tveimur árum og getu til að standa undir þessum gjöldum. Það hefur kannski ekki komið nægilega skýrt fram en ég hef haldið því fram að undanfarin tvö ár séu bestu ár í sjávarútvegi frá því að kvótakerfið kom á. Það er vert að huga að því hvaða ríkisstjórn var þá við völd. Hins vegar eru áhrifin því að þarna er verið að kippa út úr ríkisfjármálunum verulegum upphæðum. Það hefur verið rætt svolítið um það. Í síðasta lagi kannski örstutt varðandi það að erfitt hefur verið að fá gögn. (Forseti hringir.) Hér liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum varðandi Hagstofuna til að geta aflað upplýsinga um skuldir heimilanna. Hefði slíkt ekki verið hægt til að afla upplýsinga (Forseti hringir.) um sjávarútveginn?