142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[12:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi afkomu sjávarútvegsins má fara lengra aftur. Það er alveg ljóst að undanfarin fjögur og í raun fimm ár hafa myndað algerlega einstakt afkomuskeið í íslenskum sjávarútvegi. Það má nota ýmsa mælikvarða til að sjá það. Um 80 milljarða framlegð hefur verið núna ár eftir ár þannig að þó að 13–14 milljarðar séu teknir í veiðigjöld eru skildir eftir 65 milljarðar í framlegð, sem eru einhverjar hæstu tölur sem nokkurn tíma hafa sést fyrir daga veiðigjalda. Það er meiri framlegð eftir, þrátt fyrir veiðigjöld í sjávarútveginum í dag, en hann hefur nokkurn tíma áður búið við.

Í frumvarpinu er birt tafla um lækkandi skuldir sjávarútvegsins. Það má líka fara í efnahagsreikninginn, í eiginfjárþróunina. Hvernig hefur hún verið? Ætli það sé ekki um 260 milljarða sveifla í eigin fé sjávarútvegsins á undanförnum fjórum árum, úr mínus 60 milljörðum við hrunið í um 200 milljarða jákvætt eigið fé í dag. Hvaða dæmi hafa menn um atvinnugrein sem hefur tekið annað eins risastökk hvað varðar afkomu (Forseti hringir.) og hér um ræðir? Það er augljóst mál að sá grátkór sem sumpart hefur komið hingað inn í þingsalina eða verið á fundum stórútgerðarmanna (Forseti hringir.) — það er ömurlegt að hlusta á slíkt.