142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[13:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að fá þessar upplýsingar inn í umræðuna strax.

Varðandi það sem ég spurði um í sambandi við Hagstofuna þá vekur athygli að það er, eins og ég segi, komið hingað inn með frumvarp til að breyta lögum um aðgengi að upplýsingum og veita heimildir til að safna upplýsingum. Hefði ekki mátt og er ekki enn möguleiki á að breyta lögum með svipuðum hætti varðandi sjávarútveginn? Það skiptir auðvitað miklu máli að búa til þannig umhverfi að við séum með upplýsingar eins nálægt í rauntíma og hægt er varðandi afkomu þannig að skattlagning eða auðlindarenta, eins og hér er um að ræða, verði sem næst í tíma.

Ég hef líka skilið hv. þingmann þannig að það eigi að vera auðvelt að ná þessum tekjum jafnvel þó að horfið yrði frá því formi sem talað var um áður. Mínútan er nú ekki langur tími til að svara slíku en það hefði verið gaman að taka örlítið meiri umræðu um það. Hvaða afsakanir er í raun verið að nota til að létta þessu af í sjávarútvegi?