142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[13:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vandinn við stöðu Hagstofunnar og að nokkru leyti ríkisskattstjóra í þessum efnum er auðvitað sá að þessi embætti eru mjög viðkvæm fyrir því hvernig upplýsingar sem þau afla og fá beint frá fyrirtækjunum á grundvelli sterkra lögheimilda sinna til að nýta í eigin starfsemi eru notaðar af öðrum utan veggja stofnunarinnar. Það er ekki alveg auðleyst mál að setja lagaákvæði sem að einhverju leyti skylda svona aðila til þess að taka eitthvað af upplýsingum sínum og nota í öðrum tilgangi en starfrækslu stofnunarinnar. Það var verið að reyna að koma þessu á með samkomulagi en kannski þarf að styrkja lagaumgjörðina eða leggja þá lagakvöð á Hagstofuna, eftir atvikum ríkisskattstjóra eða skattinn, að skilgreina einfaldlega tilteknar upplýsingar og afhenda inn í grunninn.

Varðandi tekjurnar þá fullyrði ég að það að leggja á veiðigjöld á næsta fiskveiðiári, sem skilaði um það bil óbreyttum tekjum, er ekki minnsta vandamál fyrir afkomu greinarinnar. En ég viðurkenni alveg að það mundi þurfa að leggjast nokkuð öðruvísi á. Það er eðlilegt að uppsjávarveiðarnar beri þyngri hlut (Forseti hringir.) og bolfiskveiðarnar eitthvað minni og kannski þyrfti líka að jafna eitthvað innan þess hóps og reyna að létta á minni og meðalstórum fyrirtækjum og/eða þeim fyrirtækjum sem sérstaklega sækja í tegundir sem ekki skila (Forseti hringir.) eins mikilli framlegð.