142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[13:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna, en ég er ekki sérfræðingur í því hvað Norðmenn varðar en hins vegar hef ég lesið mér til um auðlindarentuna, hvernig þeir reikna hana út af olíunni og eins af raforkuframleiðslu. Ég hef skoðað sérstaklega hvernig þeir haga sér gagnvart sveitarfélögum, t.d. þar sem raforkuframleiðslan er og er þess gætt að þau landsvæði njóti þess sérstaklega, sem mér finnst afar skynsamlegt. Það er sú fyrirmynd sem mér finnst að við ættum að nota þegar við þróum okkar aðferð við að taka auðlindarentu af auðlindum okkar, sem eru ekki bara sjávarauðlindir heldur er Ísland sem betur fer ríkt af auðlindum sem við nýtum og munum nýta í framtíðinni. Skapa þarf heildstæða stefnu um þetta.

Því miður, virðulegi forseti, þekki ég ekki nákvæmlega hvernig Norðmenn fara með auðlindarentu sína í sjávarútvegi, en þekkt er aðferð þeirra bæði varðandi olíuauðlindina og raforkuna.