142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[14:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum breytingar á lögum um veiðigjöld, mál sem kom mönnum verulega á óvart þegar það kom í þingið, a.m.k. mér. Ég átti von á því að hugsanlega yrðu gerðar einhverjar breytingar á framkvæmdinni. En ég hafði ekki séð fyrir að menn mundu leyfa sér að minnka tekjurnar svo mikið vegna þessara veiðigjalda, enda er ekkert tilefni til þess ef litið er á heildarafkomu greinarinnar. Þarna er sem sagt verið að tala um að létta af sjávarútveginum 3,2 milljörðum kr. bara á þessu ári og erum við að tala um álagningu sem óhætt er að fullyrða að miðist við bestu ár út frá arðsemi í sjávarútvegi frá því að kvótakerfið kom á 1992. Það skýrist auðvitað að verulegu leyti af gengisskráningunni og hvernig breytingar urðu á henni við hrunið. Það er auðvitað þess vegna sem sjávarútvegurinn hefur ávallt gegnt alveg gríðarlega miklu hlutverki í samfélagi okkar, en engin ástæða er til annars en að lögð séu á gjöld aukalega þegar menn upplifa slíka tíma, miðað við þessa afkomu, á sama tíma og við erum með yfirskuldsettan ríkissjóð sem á í rekstrarerfiðleikum. Þess vegna er nauðsynlegt að nýta alla tekjustofna til þess að láta hjálpa okkur í gegnum ógöngurnar.

Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir söguna vegna þess að ég held að það sé afar mikilvægt að menn átti sig á því hver aðdragandinn að veiðigjaldaumræðunni er yfir höfuð. Það er sko aldeilis ekki nýtt að hér sé rætt um þessi mál og það er aldeilis ekki nýtt að menn hafi talið það sanngirnismál og mikilvægt að lögð sé á einhvers konar auðlindarenta eða auðlindagjald fyrir þann rétt að fá að nýta sjávarauðlindina.

Í þeim tilgangi skilaði tvíhöfðanefnd, sem kölluð var, áliti strax árið 1993 og kemur það ágætlega fram í skýrslu, sem ég ætla að hafa í púltinu hjá mér, frá starfshópi sem ég stýrði. Það er skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða þar sem reifuð voru álitamál, greiningar, skýrslur og valkostir við breytingar á stjórn fiskveiða. Það er vinna hóps sem vitnað er í í stjórnarsáttmálanum varðandi það að byggja á því í lausnunum til þess að reyna að ná sáttum í þessum málaflokki, sem ég tel vera gríðarlega mikilvægt.

Ég ætla aðeins að fara aftur í tímann og rifja upp söguna. Hér var sett á fót tvíhöfðanefnd sem skilaði af sér áliti árið 1993 og er forvitnilegt að sjá að þar er einmitt talað um gjaldtöku af veiðiheimildum fyrir aflaheimildir og réttinn til þess að veiða fisk.

Vegna sífellds ágreinings um það atriði var skipuð auðlindanefnd sem skilaði skýrslu árið 2000. Þar var lögð mikil áhersla á að um væri að ræða auðlind í þjóðareign. Það hefur í rauninni verið þemað í gegnum alla lagasetninguna að menn hafa litið þannig á að verið væri að nýta auðlind, auðlind ekki væri í eigu viðkomandi fyrirtækja. Jafnvel þó að sumir hafi túlkað það þannig að eitthvert eignarréttarígildi væri fyrir hendi hafa lögin alltaf verið skýr hvað þetta varðar.

Á bls. 9 í skýrslunni kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

Nefndin er „þeirrar skoðunar að rétt sé að stefna að greiðslu fyrir afnotarétt af öllum auðlindum sem eru í eigu ríkis eða þjóðar af tvennum ástæðum: annars vegar til að greiða kostnað ríkisins af stjórn og eftirliti með viðkomandi auðlind, hins vegar til að tryggja þjóðinni í heild sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting hennar skapar“.

Þetta var skrifað árið 2000 af nefnd sem þá var starfrækt, gott ef það var ekki Jóhannes Nordal sem stýrði þeim hópi á þeim tíma.

Á þeim tíma skoðuðu menn líka ýmsar leiðir til þess að fara í þessu sambandi. Þá var strax komin upp hugmyndin um fyrningarleiðina, að menn gætu tekið gjald af sjávarafurðinni þar sem sjávarútvegurinn verðlagði aflahlutdeildir sínar sjálfur í gegnum tilboðsmarkað eða uppboðsmarkað, fyrst og fremst tilboðsmarkað. En niðurstaðan var sú eftir átök að leggja til veiðileyfagjald. Á því veiðileyfagjaldi hefur verið byggt síðan. Að vísu kom í millitíðinni svokölluð endurskoðunarnefnd sem skilaði viðbótaráliti, ef ég man rétt stýrði Vilhjálmur Egilsson þeim hópi árið 2001. Niðurstaðan var sú sama, að halda sig við niðurstöðu auðlindanefndarinnar frá árinu 2000. Það kemur allt fram í vinnu þess hóps vegna þess að það er auðvitað mikilvægt að vera ekki að vinna hlutina í endalausu tómarúmi.

Það er athyglisvert áfram að skoða skýrslu auðlindanefndar frá árinu 2000 því að þar stendur, með leyfi forseta, á bls. 10:

„Nefndin telur brýnt að mótuð verði samræmd stefna og stjórn á nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi sem skapi heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda. Reynt verði eftir föngum að beita hagrænum stjórntækjum á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við.“

Sú vinna hefur því miður aldrei klárast en þó hefur verið starfandi auðlindanefnd sem hefur komið með samræmdar tillögur um það hvernig þjóðin eigi að fá arð af auðlindum sínum, þar með af vatnsaflinu og gufuaflinu og öðru slíku þar sem menn hafa horft til þess jafnvel að taka þá rentu í gegnum fyrirtækin.

Það er fróðlegt að sjá eftirfarandi í skýrslu endurskoðunarnefndar, sem skilaði árið 2001, með leyfi forseta:

„Nefndin fjallaði um afnotarétt af auðlindinni og gjaldtökur fyrir hann. Meiri hlutinn taldi æskilegt að skýra betur þau réttindi sem veiðiheimildirnar fælu í sér.“

Eitt atriði er mjög mikilvægt að komi inn í áframhaldandi vinnu varðandi sjávarútveginn, þ.e. að skilgreind sé krafa um með hvaða hætti þeir sem fá leyfi til þess að nýta auðlindina fara með hana og hvaða skilyrði menn eiga að uppfylla til þess að fá að nýta auðlindina. Það kemur líka ágætlega fram í nefndaráliti endurskoðunarhópsins. Þar segir varðandi endurskoðunarstarfshóp 2001, með leyfi forseta:

„Nefndin lagði til að veiðigjaldið yrði tvískipt, annars vegar fastur hluti sem tæki mið af kostnaði ríkisins vegna stjórnar fiskveiða og hins vegar breytilegur hluti sem réðist af afkomu greinarinnar og er þetta ítarlega útfært í skýrslu nefndarinnar.“

Svo eru ákvæði um að nýta eigi þessar tekjur til þess að styrkja sveitarfélög o.s.frv.

Mér finnst mikilvægt að draga það fram hér svo við förum nú ekki enn einn hringinn og séum alltaf að leita að nýjum og nýjum lausnum. Frá því að ég fór að fylgjast með málinu, en ég hafði fylgst með því áður en ég kom á þing 2007, hafa menn alltaf fundið undanþágur frá því að greiða þessi gjöld. Áður báru menn fyrir sig afkomu greinarinnar á ákveðnum tímabilum því að það var ekki mikill arður af sjávarútvegi á árunum 2003, 2004 og 2005. Þá veita menn endalaust afslátt af því gjaldi sem þó var lagt á, breyta prósentum alveg niður í það að þegar aflaheimildir voru dregnar niður, sem sagt alveg um 30% eins og gert var árið 2007, þá var veiðileyfagjaldið nánast fellt út.

Núna þegar sjávarútvegurinn er með bullandi afkomu og skuldir hafa verið lækkaðar, eignastaðan hefur aukist og menn ætla að fara að byggja gjaldtökuna á því að reyna að ná hluta af sannanlegri rentu koma aftur endalausar afsakanir. Þá kemur aftur upp ágreiningur varðandi veiðitegundir, þ.e. hvaða fisk er verið að veiða, með hvaða veiðarfærum og á hvaða bátum, á hvaða svæðum og annað slíkt, allt saman eru það þekkt mál. Ég held að það sé afar mikilvægt að við reynum að leiða málið til lykta. Mér finnst það mikill kjarkur hjá núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ráðast í að lækka veiðigjaldið í þeirri stöðu sem ríkissjóður er nú í og vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað hér um að reyna að verja velferðarkerfið og halda áfram uppbyggingu hér á landi. Mér finnst það kolröng forgangsröðun og engin efnisleg rök fyrir því þó að við höfum öll verið tilbúin að taka þátt í því að breyta álagningunni þannig að hún væri betur framkvæmanleg og sanngjarnari hvað útfærslu varðar. En það þýðir ekki að það þurfi að lækka heildartöluna.

Í nefndarvinnunni á sínum tíma voru tilgreind þau markmið sem farið var af stað með þegar sá hópur var skipaður. Þar átti hópurinn að vinna að endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni með því að stuðla að vernd fiskstofna, stuðla að hagkvæmni, nýtingu auðlinda sjávar, treysta atvinnu, efla byggð í landinu og skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar. Það voru verkefnin í meginatriðum en því til viðbótar var talað um að leggja grunn að innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.

Verið hafa mismunandi túlkanir á því ákvæði, allt frá því að túlka það sem fyrningarleið yfir í að túlka það þannig að þarna ætti að gera samninga til langs tíma og undirstrika að hér væru menn að vinna samkvæmt samningum þar sem auðlindin væri klárlega í eigu þjóðarinnar en að menn hefðu afnotarétt.

Það má segja um þetta að niðurstaðan úr þessari vinnu allri saman hafi einmitt verið að það voru fjögur atriði sem við vildum að sátt væri um:

Í fyrsta lagi ákvæðið um þjóðareignina, að það væri skýrt og yrði fest í stjórnarskrá og tryggt að ekki væri hægt að leika sér neitt með túlkun á því ákvæði eða búa til einhver eignarréttarskilgreiningarákvæði í sambandi við það. Það væri alveg skýrt og afdráttarlaust að þjóðin ætti eignina.

Í öðru lagi að afnotum af þessari þjóðareign skyldi úthlutað til tilgreinds tíma og með reglum, eins og fyrri nefndir hafa nefnt, þar sem skilgreint væri hvaða réttur fælist í því að hafa aðgang að auðlindinni og þá til hve langs tíma, endurnýjunarréttur og fleira í því samhengi.

Í þriðja lagi var atriðið að úthluta ætti aðgangi til tilgreinds tíma gegn gjaldi og það er akkúrat það sem við erum að ræða hér í dag, þ.e. hversu hátt gjaldið á að vera. Það er alveg afdráttarlaust, þetta er það sem menn tala um að eigi að vera í sjávarútvegsstefnunni.

Í fjórða lagi, sem er auðvitað erfitt í túlkun en skiptir samt gríðarlega miklu máli og er eiginlega spurning um atvinnuréttindi almennt, er að jafnréttis sé gætt við úthlutun. Þá er ekki verið að tala um úthlutun á því sem er í höndum þeirra sem eru með samninga. Hér er verið að tala um ef viðbótarheimildir skapast eða nýjar tegundir koma að menn eigi aðgang að því með einhverjum sanngjörnum hætti sem fleiri eigi aðgang að en ein tegund útgerðar eða útgerðir á einhverju ákveðnu svæði. Þó hafa menn haft skilning á því að taka þurfi tillit til hugsanlegrar veiðireynslu eða ef menn hafa vakið athygli á auðlind með því að vera fyrstir til þess að nýta hana o.s.frv. En jafnræði skiptir þarna mjög miklu máli.

Þetta eru þau atriði sem komu síðan inn í stjórnarskrártillögurnar hjá fyrrverandi stjórnlaganefnd. Þessi atriði voru nákvæmlega þau sem lögð voru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi stjórnarskrána og voru studd af 82% þeirra sem tóku þátt í þeirri kosningu. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þjóðarviljinn er mikill og í því á sáttin að felast; að þetta verði grundvallaratriðið í sjávarútvegskerfinu.

Við erum ekki að tala um að breyta aflareglu eða neitt slíkt, hún er eftir sem áður en ég ætla ekki að fara ítarlega út í það. Þess vegna skiptir líka miklu máli þegar við erum að ræða sátt að við ræðum við hvern sáttin er. Mesta ósættið á tímabili var þegar verið var að ræða um nýjar tillögur í sambandi við sjávarútveg jafnvel á milli landsvæða þar sem ólíkir hagsmunir voru hjá uppsjávarfisksfyrirtækjunum á Austurlandi og Suðurlandi á móti bolfiskveiðisvæðunum á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Þar varð t.d. ein af frægustu uppákomunum sem allt logaði út af því að í svokölluðu bótakerfi, eða þar sem menn voru með línuívilnanir og sérstakar fyrirgreiðslur, byggðaúrræði, að menn ákváðu að skipta upp með nýjum hætti þannig að uppsjávarfisksfyrirtækin legðu til þorskígildi inn í þessa potta til jafns við bolfiskinn. Þá varð allt vitlaust á milli landsvæða og hafði það ekkert með flokkspólitík að gera þó að sumir héldu það, enda varð tillaga sem þar komst inn í frumvarp þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála var flutt af hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni og Einari K. Guðfinnssyni og fór hún þangað nánast óbreytt. Hv. þingmenn studdu það einlæglega og hafa gert alla tíð síðan.

Ég skora á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja nú a.m.k. að tekjurnar verði ekki rýrðar í þessari lotu einfaldlega vegna ríkissjóðs og vegna þess að við þurfum að sjá til þess að samfélag okkar gangi vel áfram. Við þurfum að tryggja að við höfum tekjur núna af þessum greinum okkar sem eru burðarásarnir, einmitt vegna gengisstöðunnar, að þær skili fyllilega sínu til samneyslunnar. Þess vegna held ég að það sé mjög misráðið að fara í þá lækkun sem hér er lögð til.

Ég vil endilega að farið verði með málið ekki bara inni í atvinnuveganefnd heldur líka í fjárlaganefnd til þess að þessi mál verði rædd vegna þess að það hefur víðtæk áhrif að kippa út úr tekjumöguleikum 3,2 milljörðum á þessu ári og allt upp í 6,4 milljörðum árlega í framhaldinu þó að við verðum að hafa allan fyrirvara varðandi veiðigjaldið, það er lagt þannig á að það getur farið niður í núll. Þess vegna er það ekki bara hluti af rekstrinum heldur líka hluti af framkvæmdum vegna þess að við verðum að gera okkur grein fyrir því að við verðum að þola sveiflurnar í veiðigjaldinu þegar (Forseti hringir.) hugsanlega árar verr í framtíðinni, en sem betur fer stefnir í það með auknum veiðiheimildum að bjart verði fram undan í sjávarútvegi.