142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[14:17]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég hélt jómfrúrræðu mína hérna í gær og var afskaplega ánægður með það að hafa stigið þetta skref og komið í pontu. Ég hafði tekið þá ákvörðun sem nýr þingmaður að vera ekki mikið að brölta hingað upp fyrr en ég væri búinn að átta mig aðeins á hlutunum og hlusta og læra. Það er víst óhætt að segja að maður hafi gert það.

Þetta veiðigjald og umræðan um það snertir mig svolítið líka vegna þess að ég bý í sjávarútvegsplássi sem á í rauninni nánast allt undir sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Ég hef unnið hjá mörgum af þessum stærstu fyrirtækjum í Grindavík. Ég vann í fiski í 30 ár og er búinn að sjá hvernig þróunin í sjávarútvegi hefur verið alla þessa tíð og hef séð hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur dafnað og stækkað og orðið betri og betri. Ég vann á fiskmarkaði í 11 ár og sá þróunina á því hvernig meðferð á afla varð betri og betri. Í dag stöndum við frammi fyrir því að vera með einn best rekna sjávarútveg í heimi, sjávarútveg sem skilar gríðarlegum arði fyrir eigendur sína og samfélag.

Ég tók þátt í kosningabaráttunni af fullum hug og hef talað fyrir hönd míns bæjarfélags og allra í rauninni.

Það má alveg deila um hvort veiðigjaldið sé hóflegt, of mikið eða hvernig það er, við getum talað um það. Ég tók undir með fólki að það væri kannski of mikið en ég vissi það ekki, ég kann ekki alveg deili á því. Ég er búinn að hlusta á þessa umræðu í dag og það er ljóst að hér eru menn sem hafa mikið vit á þessu og hafa fylgst mikið með þessu. Það sem fékk mig til þess að vera mjög ánægður með að þetta veiðigjald var sett á á sínum tíma var að við þurfum að fá arð af auðlindum okkar, ekki bara sjávaraútvegsauðlindinni sem slíkri heldur öllum auðlindum okkar.

Ég hef fylgst með því í gegnum tíðina að á Íslandi er alltaf allt fjársvelt. Við getum ekki rekið hérna heilbrigðiskerfi, löggæslu, menntakerfi eða nokkra grunnþjónustu nema með einhverjum harmkvælum. Það kemur mér spánskt fyrir sjónir í landi eins og Íslandi þar sem búa 320 þús. manns og er svona gríðarlega ríkt af auðlindum. Hvar eru allir peningarnir? Ég spyr. Ég velti þessu oft fyrir mér og ég verð oft dapur yfir því hvernig er komið fyrir þessari þjóð í rauninni, eins stórkostleg og hún er. Ég segi að stór ástæða fyrir því sé að kökunni er ekki rétt skipt hérna og hefur aldrei verið. Við tölum um sjávarútvegsfyrirtækin, sem eru frábær. Ég er stoltur af sjávarútveginum á Íslandi, ég er stoltur af að hafa tekið þátt í að vinna við hann og ég er stoltur af því að þekkja þetta góða fólk. Ég er til dæmis mjög þakklátur einum útgerðarmanni í Grindavík sem hjálpaði mér þegar ég tók mín fyrstu skref í búskap, hann á alltaf stað í hjarta mínu fyrir þá hjálp. En hvernig stendur á því að við erum svona fjársvelt? Ég velti þessu svo oft fyrir mér. Þess vegna er þessi umræða eiginlega bara óþörf.

Ég kom hingað upp í gær í jómfrúrræðunni og talaði um að ég mundi styðja núverandi ríkisstjórn til allra góðra verka. Á fyrsta fundi okkar þar sem við vorum saman í kosningabaráttunni, ég og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði ég við hann að ég hefði sennilega kosið Framsókn ef ég hefði ekki verið að brölta sjálfur í þessu, svo safarík og girnileg var stefnuskráin hjá þeim. Það verður ekkert frá þeim tekið að hún var flott. Ég batt miklar vonir við þessa ríkisstjórn og geri enn. Ég tók það líka fram í gær að ég er alveg tilbúinn að gefa henni svigrúm til að koma með aðgerðaáætlun og koma með eitthvað gott fyrir heimilin við skuldavanda heimilanna. Þess vegna er ég svo dapur yfir þeim málum sem þeir koma fyrst með hingað inn. Ég tók það líka fram í gær að fyrir mér snúast stjórnmál um almannaheill og ekkert annað. Þess vegna finnst mér þetta um fyrstu málin sem eru komin hingað inn. Ég veit að þjóðin batt gríðarlega miklar vonir við þessa ríkisstjórn og þau loforð sem voru gefin. Ég vona að hæstv. ríkisstjórn geri sér grein fyrir því að bundnar eru vonir við að fyrst og fremst verði tekið á skuldavanda heimilanna.

Ég segi það nú að allar breytingar sem farið er í á hinu háa Alþingi eiga fyrst og fremst að miðast að því að þær komi sér best fyrir þá sem verst eru settir því að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Ég er búinn að vinna í fiski og þekki fullt af fólki sem vinnur í fiski og ég þekki líka fullt af fólki sem vinnur í ferðaþjónustu. Mér hefði fundist meiri bragur á því hjá hæstv. ríkisstjórn, fyrst hún talar um að lækka skatta, að lækka skatta á þá lægst launuðu. Það hefði verið bragur á því. Fólk sem vinnur við fisk alla daga eða sér um að skipta á rúmum í gistiheimilum — ég held að það hefði ekki verið vanþörf á að það fengi smákjarabót á þessum síðustu og verstu tímum.

Mikið hefur verið talað um það hérna í ræðustól að staða ríkisbúskaparins sé verri en áætlað var. Það kemur mér ekkert á óvart, við vissum það. Staðan var slæm og staðan er mjög slæm. Þess vegna, burt séð frá því hvort veiðigjaldið sé hóflegt eða réttlátt eða eitthvað og eins með gistináttaskattinn, þá finnst mér ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli fara í þetta en tala á sama tíma um að staðan sé svo slæm.

Ég hef fulla samúð með sjávarútveginum sem finnst gjaldið eitthvað hátt. Ég held að gjaldið sé ekkert of hátt eins og það er núna. Ég las viðtal við trillusjómann sem rekur lítinn bát vestur á Breiðafirði. Veiðigjaldið íþyngdi honum ekkert. Það sem hann hafði mestar áhyggjur af í sjávarútvegi var óvissan um framhaldið, kvótakerfið, hvernig það yrði. Veiðigjaldið truflaði hann ekki. En við vitum hvernig það er ef á að hrófla við einhverju. Við vitum að ef við gefum litlum krakka sleikjó og ætlum að taka hann af honum aftur þá verður hann alveg vitlaus. Þannig er það alltaf þegar á að taka eitthvað af vissum hópum sem hafa kannski meira en aðrir. Það hefur verið lenskan í þessu þjóðfélagi að um leið og á að hrófla við einhverju verður allt vitlaust. Alla vega hef ég upplifað það þannig.

Á ferðalögum mínum í kosningabaráttunni talaði fólk um heilbrigðisþjónustuna og um löggæsluna. Úti í Vestmannaeyjum, sem er mikill kvótabær og sjávarútvegsbær, talaði fólk um þetta. Það hafði miklar áhyggjur af fæðingardeildinni og það hafði miklar áhyggjur af menntakerfinu og hvernig ætti að laga það og spurði: Hvað eruð þið tilbúin að gera fyrir okkur? Ég sagði náttúrlega: Hvað á ég að gera? Ég get ekki lofað neinu. Auðvitað vill maður að þetta sé í lagi.

Ég lít á veiðigjaldið, hæstv. forseti, sem hluta af því að reyna að mæta þessum vanda í þessum byggðarlögum. Suðurkjördæmi er gríðarlega öflugt kjördæmi, þar er landbúnaður og öflug sjávarútvegsfyrirtæki. Ég hefði til dæmis viljað, þegar við tölum um veiðigjaldið, að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði talað um það hvernig væri hægt að skilja eftir um 50% af veiðigjaldinu í byggðarlögunum til að byggja upp innviðina svo að hægt væri að reka á þessum stöðum, Vestmannaeyjum, Hornafirði, Grindavík, flotta og góða heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Í Vestmannaeyjum er einn lögreglumaður á vakt. Er það boðlegt? Nei, við verðum að tala betur saman um þetta.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, eins og í Grindavík, sem er sterkt sjávarútvegspláss, að útvegsmenn eru algjörlega ómetanlegir. Þeir skapa gríðarlega mikla vinnu og eru mjög sterkir í félagsstarfi hjá okkur, í íþróttum, kirkjunni o.fl. Þetta eru ómetanlegir menn sem ég mundi ekki vilja missa.

Mér finnst að þetta mál hefði ekki átt að koma fram. Það er mín skoðun. Það er búið að setja öll þessi mál í fleiri, fleiri nefndir. Gott og vel, við getum alveg sætt okkur við það, þetta eru alvarleg mál sem þarf að ræða. Eins hefði mér fundist að þetta mál hefði mátt fara í nefnd til að ræða það betur. Ég held að sjávarútvegurinn sé þannig staddur að hann geti látið þetta af hendi.

Við munum alveg hvernig sjávarútvegurinn var hérna áður fyrr. Hann var alltaf rekinn með bullandi tapi. Það var alltaf verið að fella gengið til þess að bjarga sjávarútveginum, sem kom sér mjög illa fyrir hina lægst launuðu og hinn almenna borgara í landinu. Hann er alltaf að borga þetta, við erum alltaf að borga þetta. Af hverju er ekki verið að tala um það hér? Það er verið að tala um fyrirtækin.

Tækifærin á Íslandi eru gríðarlega mikil til atvinnuuppbyggingar, ekki síst í Suðurkjördæmi. Þar liggja tækifærin undir hverjum steini og bak við hverja þúfu. Það er bara að koma sér af stað, hætta þessum barlómi sem er allt of mikill. Það eru gríðarleg tækifæri.

Ef ég væri útgerðarmaður — segi ég, það er svo auðvelt fyrir mig að segja það — mundi ég vera stoltur af því að koma inn með meiri pening í þjóðfélagið þegar svo illa árar. Mér finnst að við þurfum einhvern veginn að skerpa þessa samfélagslegu sýn og standa betur saman, öll.

Ég hef verið láglaunamaður alla mína tíð og ég hef alltaf borgað 35–40% skatt og hef ekki talið það eftir mér, fundist það sjálfsagt vegna þess að skattar eru til þess að reka velferðarkerfið. Síðan þegar við fáum meiri arð af auðlindunum okkar, ég tala nú ekki um af orkuauðlindinni ef Landsvirkjun gæti farið að skila okkur arði upp á tugi milljarða eftir einhver ár, þá erum við farin að tala saman. Þá verður kannski hægt að lækka einhver gjöld og skatta. Það býr ekkert land í heiminum við jafn mikla möguleika og við, ég held ekki. Það er bara þannig.

Ríkisstjórnin hefur völdin. Hún kemur náttúrlega með sín mál, hún hefur fullan rétt á því, hún er með góðan meiri hluta og sterkan, og það er allt í lagi með það en mér finnst þetta kolröng forgangsröðun.

Það er eins með gistináttagjaldið, ég átta mig ekki alveg á því. Var það ekki lækkað á sínum tíma til að mæta hugsanlegum áföllum í greininni? Hvað hefur gerst eftir það? Ferðaþjónustan er á bullandi uppleið og hefur sennilega aldrei staðið betur en einmitt núna. Mér hefði ekki fundist neitt að því þó að þessum 7 prósentustiga skatti hefði verið bætt á hana, ég held að hún hefði alveg staðið undir því.

Þetta er svolítið skrýtið. Mér hafa fundist svolítil skrýtin þau mál sem hafa komið hérna fram á fyrstu dögum þingsins. Ég fagna aðgerðaáætluninni en set stórt spurningarmerki við þetta veiðigjald og það frumvarp sem hefur verið lagt hér fram. Það hefði alveg mátt bíða betri tíma. Það er ekkert fullkomið frekar en nokkuð annað í þessum heimi. Öll mál eru þess eðlis að hægt er að ræða þau fram og til baka. Við þurfum að ræða saman, til þess erum við hérna — við erum hérna til þess að ræða saman og komast að niðurstöðu sem víðtæk sátt er um, en alltaf fyrst og fremst um það sem kemur sér best fyrir þá sem verst eru settir. Það er fullt af fólki í þjóðfélaginu sem er mun verr sett en útgerðarmenn, það er þannig.

Ég vona bara að sjávarútvegsráðherra dragi þetta frumvarp til baka og snúi sér til dæmis að því að lækka raforkuverð til grænmetisbænda. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði á fundi austur í sveitum að það þyrfti ekki nema eitt pennastrik til að laga það. Það hefði verið aldeilis fínt að gera það núna. Grænmetisbændur hafa eytt 25% af rekstrarkostnaði sínum í raforku, sem er náttúrlega hlægilegt.

Það er að mörgu að hyggja í þessu en þetta er mín afstaða. Ég er stoltur af íslenskum sjávarútvegi, ég er stoltur af því hvað honum gengur vel og við eigum öll að vera það, en þetta frumvarp má bara leggja til hliðar að mínum dómi.