142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[14:31]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka að mestu málefnalegar umræður um veiðileyfagjald. Ég tek eftir því að ekki er verið að þrasa um það hvort leggja eigi veiðileyfagjald á. Allir eru sammála um að hafa auðlindagjald, það er aðeins tekist á um hversu hátt það á að vera og hvernig á að reikna það út. Það er því á málefnalegum grundvelli.

Ég vil til upprifjunar fyrir þá sem ekki muna nefna að þorskafli var árið 1980 430 þús. tonn. Árið 2012 var hann 157 þús. tonn. Árið 1984 horfðust menn í augu við að það voru allt of mörg skip að veiða. Það þurfti að fækka í greininni, það voru allir að tapa. Hvernig átti að hagræða? Þá kom þessi pólitíska spurning: Átti ríkið að taka í taumana og nota skattpeninga til að borga út þá sem fyrir voru í greininni, til að fækka skipum og skapa rekstrargrundvöll fyrir hina sem eftir voru?

Hin leiðin var að láta þá sem eftir voru í greininni borga hina út. Með öðrum orðum, þeir sem mundu njóta hagnaðarins af hagræðingunni greiddu hina út. Til guðs lukku var ekki farið í vasa skattborgara og einhverjir útgerðarmenn borgaðir út svo að þeir hættu, heldur voru þeir sem eftir voru látnir borga. Þannig byrjaði sá bolti að rúlla og þannig er það enn þá. Vandamálið, ef við getum kallað það vandamál — við segjum stundum að það séu til jákvæð vandamál — er að hagræðingin gerðist hraðar og varð meiri en menn bjuggust við. Hún lýsti sér í því að menn borguðu alltaf hærri og hærri gjöld þeim sem voru að fara úr greininni.

Svo stöndum við frammi fyrir því í dag að svo vel hefur tekist til, hagnaðurinn er svo mikill, að nú er spurningin: Hvað á þjóðin að fá mikið af hagnaðinum? Allir eru sammála um að þjóðin á sinn hlut. Við deilum aðeins um það hér hvernig við reiknum hann, hversu mikill hluturinn á að vera.

Ég vil enn fremur benda á að 80% starfa í sjávarútvegi eru á landsbyggðinni, það er búið að vera svoleiðis síðustu 30 ár. Frá 1991 til 2011 fækkaði störfum í veiðum og vinnslu um 5.200 manns. Á landsbyggðinni eru 12% starfa í sjávarútvegi meðan á höfuðborgarsvæðinu eru þau 1,7%. Það er því ekki skrýtið að menn tali um að þetta sé landsbyggðarskattur, við hljótum að geta verið sammála um það. Það lýsir sér líka svolítið í því að maður heyrir að það kveður svolítið við annan tón eftir því hvort hv. þingmenn eru af höfuðborgarsvæðinu eða af landsbyggðinni.

Auk þess má benda á að mestur fjöldi fyrirtækja í haftengdri framleiðslu, sprotafyrirtækja og þjónustufyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn, sprettur upp í Reykjavík. Við getum t.d. litið út á Granda þar sem Sjávarklasinn er. Þetta myndast allt í Reykjavík. Stækkunin og uppbyggingin í hliðargreinum sjávarútvegsins er mest í Reykjavík. Þess vegna þurfum við aðeins að gæta okkar þegar við skattleggjum grunnstoðina sem er landsbyggðin.

Eins og ég sagði heyri ég svolítinn mun á því hvort þingmenn eru héðan af höfuðborgarsvæðinu eða af landsbyggðinni í þessari umræðu. Einn talar um að smjör drjúpi af hverju strái en hv. þm. Kristján Möller skilur þetta aðeins betur, hann veit að það er ekki af hverju strái. Það er auðvitað af mörgum stráum og flóran er mikil, en ekki eru öll strá eins. Það var ágætisviðmiðun hjá hv. þm. Kristjáni Möller þegar hann líkti þessu við flatan skatt á alla landsmenn, sama hvað sem þeir þéna mikið, í hvaða aðstöðu sem þeir eru til að borga, allir skulu borga jafnt. Það stendur misjafnlega á hjá fyrirtækjum, það árar misvel hjá greinunum. Við vitum öll að í uppsjávargeiranum gengur vel, það þrætir enginn fyrir það. Á sama tíma er mikið verðfall á bolfiskstegundum, allar tölur styðja það.

Það stingur mig svolítið þegar ég heyri hvernig fyrrverandi ráðherra notar ýmis hugtök, t.d. auðlindaskatt, að sá skattur sé borgaður af arði sjávarútvegsfyrirtækja. Það vita allir að auðlindaskattur er ekki borgaður af arði sjávarútvegsfyrirtækja, hann er reiknaður út frá tveggja ára gömlum gögnum um hagnað í sjávarútvegi í heild. Það er stór munur þar á. Annað orð er umframhagnaður, sem ég kann ekki alveg að útskýra. Ef ekki er tekið tillit til rekstrarafkomu hvers útgerðarflokks fyrir sig gefur augaleið að einhver fyrirtæki þola það ekki. Við vitum að það eru einkum minni fyrirtækin sem þola verr skakkaföll.

Ég fagna ákvæði um sérstök þorskígildi þar sem til grundvallar er lögð framlegð út úr hverri fisktegund fyrir sig. Eins og lögin eru í dag er hætta á því að sumar fisktegundir verði ekki veiddar af því að veiðileyfagjöldin eru svo há. Dæmin sýna það. Menn þurfa að átta sig á því að þó að afurðaverð sé það sama getur verið mismunur á því að veiða hverja tegund. Það getur verið stór munur þar á. Venjulegir þorskígildisstuðlar í dag taka aðeins tillit til afurðaverðs þannig að þó að ráðherra taki sér vald og tíma að skoða það og reikna kostnaðinn inn í það líka, til að tryggja að við verðum ekki af þessum tekjum, þá verðum við að nýta allar auðlindirnar. Við megum ekki skattleggja okkur svo mikið að við töpum af þeim. Afurðaverðið segir ekki allt.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um hvernig Norðmenn hafa kerfið. Það er svolítið athyglisvert. Eins og kom fram áðan verður það væntanlega tekið fyrir í nefnd. Það er ekki alveg hægt að miða við hvernig við skattleggjum olíu, rafmagn eða aðrar auðlindir því að í dag tökum við aðeins auðlindagjald af sjávarútveginum. Er ekki kominn tími til að við lítum á fleiri auðlindir? Ég held að það sé kominn tími til þess.

Sumir hv. þingmenn benda á skattaleiðina eins og fleiri hafa gert og hún hefur oft komið til tals. Mönnum finnst sanngjarnara, í staðinn fyrir að vera með flatan skatt, hvort sem er á alla greinina eða hverja grein fyrir sig, að miða við skattskýrslu hvers og eins fyrirtækis. Ég heyri að ekki treysta allir skattskýrslunum.

Mönnum verður líka tíðrætt um stórfyrirtækin, stórútgerðina, það er vinsælt orð. En eigendur stórútgerðanna eru flestir hluthafar. Oftast er félögin í því formi að eigendurnir eru hluthafar og þeir geta ekki greitt sér arð úr fyrirtækjunum nema það sé hagnaður. Ég tel því ekki miklar líkur á því að þeir reyni ekki að mynda sem mestan hagnað til að fá arð af hlutabréfum sínum. [Kliður í hliðarsal.] Þar fyrir utan, til að forðast að borga tekjuskatt, er vinsæl leið að fjárfesta og framkvæma, en það er kannski ekkert svo slæmt. Er ekki bara allt í lagi þó að menn fari í að framkvæma og það komi inn í veltu? Ég held að þannig gætu orðið til meiri tekjur fyrir þjóðina.

Ég held að maður geti sagt að stórútgerðin sé ekki kát í dag. Það er verið að hækka veiðigjöld á hana. Ef einhverja útgerð, eitthvert útgerðarmynstur, er hægt að flokka sem stórútgerð þá eru það uppsjávarfyrirtækin. Það er verið að hækka gjöldin á þau umtalsvert. Það talar enginn um það. Menn geta síðan stillt þessu upp þannig að veiðigjöldin hafi átt að fara í Norðfjarðargöng og Landeyjahöfn en sömu menn minntust ekki á Vaðlaheiðargöng. Ég sé ekki stóran mun á því hvort ég er í ábyrgð fyrir einhverju eða legg út fyrir því sjálfur því að ég þarf væntanlega að taka lán fyrir því. Þetta er einföldun á málinu, auðvitað kemur þetta inn í rekstur ríkisins, tekjur og gjöld. Ástæðan fyrir því að við hækkum gjöld á uppsjávarskipin er að við þurfum svigrúm til að auka veltuna og skapa meiri tekjur.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson minntist á sáttanefndina, sem hann stjórnaði, og hann er ekki einn um það. Mönnum verður mjög tíðrætt um hina svokölluðu sáttanefnd og vitna oft til hennar og skilja ekki enn í dag af hverju var ekki farið meira eftir niðurstöðum hennar. En ég fagna því að menn eru að tala um útfærslu á veiðileyfagjöldum, auðlindagjaldið, hvernig við útfærum það og hversu hátt við höfum það.