142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvert er umboð nefndarinnar til að gera á málinu einhverjar breytingar? Hv. þm. Helgi Hjörvar veit jafn vel og ég að alþingismenn hafa bara það umboð sem þeim er veitt þegar þeir eru kosnir til Alþingis og það er nákvæmlega það umboð sem við notum. Ég þarf ekki umboð frá neinum öðrum. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var að meina að hæstv. fjármálaráðherra eða sjávarútvegsráðherra væru búnir að veita okkur í nefndinni eitthvert umboð eða svigrúm til breytinga af sinni hálfu. Ég hef ekki átt neina umræðu um það við þá og ég tel að við í atvinnuveganefnd þurfum ekki á slíku umboði að halda.

Það er verkefni allra nefnda í þinginu, þegar mál er komið frá ríkisstjórn til þings, að fara með það í góða vinnu. Leitað verður umsagna í málinu hjá helstu hagsmunaaðilum og ekki er ólíklegt að leitað verði til sérfræðinga til að fá einhverjar niðurstöður um áhrif þessara breytinga á veiðigjaldinu. Nefndin mun að mínu mati þurfa að líta til þess hvort of langt sé gengið hér gagnvart fyrirtækjum í uppsjávarveiðum, við þurfum að líta til þess, (Forseti hringir.) og hvort jafnvægið í þessu geti talist eðlilegt. Það verður verkefni okkar og við munum fara málefnalega og faglega yfir það.