142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, svona er þetta stundum í pólitískri umræðu. Nú sagði hv. þm. Helgi Hjörvar að ég hefði sagt að til greina kæmi að skoða hvort gjaldið á uppsjávarfyrirtækin væri of hátt í frumvarpinu. Hann gleymdi alveg að nefna það sem fylgdi þeirri setningu hjá mér, sem var nákvæmlega það hvort það þyrfti hugsanlega að jafna gjaldið á milli greinanna. En svona er þetta í pólitísku umræðu, orð eru gjarnan slitin úr samhengi. Þá er það bara áréttað hér.

Varðandi ráðgjöfina sem ég talaði um, að við mundum hugsanlega leita til einhverra sérfræðinga, er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að við þingmenn stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili óskuðum eftir því í vor að reiknuð yrðu út áhrif fiskveiðistjórnarfrumvarpsins, sem þá lá fyrir þinginu, á greinina. Það fól í sér gríðarlega miklar álögur og gríðarlegar grundvallarbreytingar á greininni. Því var hafnað. Við fengum ekki þá vinnu framkvæmda, í stuttu máli. Því var hafnað og málið keyrt í gegn.

Þau vinnubrögð verða ekki stunduð í þessu máli en auðvitað erum við að ræða um allt annað frumvarp. Hér erum við að tala um að lækka þau veiðigjöld sem voru lögð á af síðustu ríkisstjórn. Þegar ég segi að við þyrftum að fá einhverja útreikninga þá er það fyrst og fremst til að átta mig á því hver áhrifin verða innan greina og milli mismunandi greina og ólíkra útgerðarforma og hvernig við ætlum að ná þessu samhengi. Það er ekki eins mikið undir hér og var í þeim (Forseti hringir.) stórkostlegu grundvallarbreytingum sem voru boðaðar í því fiskveiðistjórnarfrumvarpi.