142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:17]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því áður en ég ber upp spurningu við hv. þingmann að leiðrétta ákveðna þætti sem komu fram í máli hans þegar hann sagði að það væri dæmi um ómálefnalega umræðu að ég hefði sagt að afleggja ætti veiðigjöldin. Í andsvari mínu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon orðaði ég þetta einhvern veginn svona en leiðrétti mig síðan og sagði að það ætti að lækka þau. Að sjálfsögðu mundi ég ekki vilja standa hér og plata, ég mismælti mig bara og leiðrétti það. Ég vona að þingmaðurinn taki því með þeirri auðmýkt sem hann lýsti yfir að hann vildi gjarnan beita í garð sinna pólitísku andstæðinga.

Við erum að tala um, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á, lækkun á veiðigjaldi en því var ætlað að fjármagna útgjöld samkvæmt fjárlögum. En ástæðan fyrir því að mig langar að tala við hv. formann atvinnuveganefndar er sú að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar mjög við þeirri lækkun og telur að með henni sé verið að ógna þeim góða árangri sem hafi náðst í ríkisfjármálum. Ekki nóg með það heldur segir Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í New York, engin hagfræðileg rök fyrir þessu frumvarpi og að það skjóti skökku við að lækka veiðigjaldið sem hagkvæmustu leið ríkissjóðs til að afla sér tekna og bendir á að ef eitthvað væri ætti frekar að hækka það. Ég vildi heyra viðbrögð þingmannsins við þessu.