142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu. Komið hefur fram í umræðunum í dag að þetta er flókið mál og á því eru margar hliðar. Hv. þingmaður var í hv. atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili og þekkir mjög vel hvernig vinnan var við lögin um veiðigjaldið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún telji að ferillinn verði í atvinnuveganefndinni þegar málið kemur þangað inn og eins umsagnartíminn og það allt saman. Hvernig verður vinnan við málið í hv. atvinnuveganefnd?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún styðji ekki þá beiðni mína og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að um málið verði einnig fjallað í fjárlaganefnd. Það skiptir mjög miklu máli fyrir ríkisfjármálin, þetta eru háar tölur.

Ég nefndi það í ræðu minni fyrr í dag að ef tekið er saman tekjutapið af þessu frumvarpi og frumvarpinu sem hæstv. fjármálaráðherra lét verða sitt fyrsta verk að leggja fram eru það 8 milljarðar. Ef ég horfi bara á mína heimabyggð þá dugar það fé fyrir rekstri stoðstofnana þar, rekstri fjölbrautaskólans, lögreglustjóraembættisins og heilbrigðisstofnunarinnar, og þá ættum við jafnframt afgang til þess að reka sjúkrahúsið á Akureyri.

Ég hefði alveg eins getað nefnt Fæðingarorlofssjóð. Það eru 7,4 milljarðar sem ríkið setur í hann á árinu 2013, en hér erum við að tala um að skerða tekjur ríkisins um 8 milljarða.