142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:55]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessum þunnskipaða þingheimi spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um hagnaðarhugtakið. Ég hef nú reynt að fletta upp þessum umframhagnaði og ég finn ekki alveg útskýringu á því hvernig hægt er að ákvarða hann með mjög hlutlægum hætti. Það hlýtur að verða huglæg stærð.

Annað er að það er alveg sama hvernig ég fletti upp gögnum, reyndar frá 2011, um hagnað af veiðum og vinnslu, þar kem ég þessari tölu ekki upp í þá 80 milljarða sem hv. þingmaður talar um sem hagnað í greininni. Þar er framlegð af greininni upp á 25 milljarða til greiðslu afborgana og vaxta en ég átta mig ekki almennilega á því hvernig þú færð þessa 80 milljarða sem hagnað í greininni.

Erum við ekki að tala hér um tölur út og suður, eins og gert var t.d. varðandi sölu á gistiþjónustu, sem ég mun fjalla um síðar ef ég kemst að?