142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lífið væri ekki flókið ef við þyrftum bara að glíma við að finna út úr því hvað umframhagnaður er í sjávarútvegi. Ég held að ég og hv. þingmaður getum alveg verið sammála um að það finnst nú einhver hagnaður í sjávarútvegi, sem betur fer fyrir okkur sem þjóð og við njótum öll góðs af. Svo er það alltaf spurningin um hvernig við viljum skipta því sem menn hafa þá til skiptanna umfram eðlilega fjárfestingaruppbyggingu í fyrirtækjum og greiðslur til starfsfólks.

Ég vil í lokin einnig nefna það sem var nefnt hér í ræðum hv. þingmanna áðan að ég tel að greinin ætti að sjá sóma sinn í því að borga fiskvinnslufólki í landinu hærra kaup miðað við þá miklu uppsveiflu sem er í greininni. Ég vann í frystihúsi í mörg ár og þar voru launin ekki til að hrópa húrra fyrir.