142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

ríkisfjármál.

[13:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég skil vel að menn vilji vita allt um samtöl ráðherra í milli og kalla eftir upplýsingum um það hvað rætt er formlega eða eftir atvikum óformlega í samskiptum fjármálaráðuneytis og einstakra fagráðuneyta. Það verður hins vegar ekki þannig að það verði allt rekið fyrir opnum tjöldum áður en hugmyndir hafa verið skoðaðar og þær útfærðar með skriflegum hætti í formi fjárlagafrumvarps.

Spurt er: Hver er stefnan? Stefnan er sú að ná auknum hagvexti. Þegar menn horfa til baka og skoða áætlanir sem gerðar voru um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þá blasir við okkur tiltölulega einföld mynd. Það er skorturinn á hagvexti sem veldur því að við erum enn í hallarekstri. Það er ástæðan fyrir því að ríkissjóður nær ekki endum saman. Töluvert mikils aðhalds hefur verið gætt víða í kerfinu. Það má hafa ólíkar skoðanir á því hvort menn hafi borið niður á réttum stöðum þegar aðhaldskrafan var gerð en það er skortur á hagvexti, á auknum umsvifum, á fjölda nýrra starfa. Stefna nýrrar ríkisstjórnar verður sú að leggja áherslu á vöxt.