142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breytt stefna Framsóknarflokksins í velferðarmálum.

[13:44]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ábendinguna um það að ég og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir ættum að tala sem oftast saman. Við gerum það reglulega og höfum almennt verið mjög sammála þegar kemur að áherslum í velferðarmálum.

Hv. þingmaður hefur einmitt lagt mikla áherslu á málefni öryrkja og aldraðra og ég tel að það muni endurspeglast í því frumvarpi sem kemur fram um breytingar á almannatryggingum.

Ég vil líka taka það fram að ein ástæðan fyrir því að ég treysti mér til að koma fram með frumvarp á sumarþingi um að afturkalla skerðingar er snúa að almannatryggingum grundvallast einmitt á trú minni á þeirri hugmyndafræði að við getum aukið hér hagvöxt með því að útbúa og byggja upp hagstæðara umhverfi fyrir atvinnulífið. Á því grundvallast velferðin.