142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

séreignarsparnaður.

[13:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur rætt um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sem hæstv. forsætisráðherra flutti á Alþingi, sem er tíu liða áætlun sem sett er fram með tímasettum dagsetningum og því hvaða ráðherra beri ábyrgð á málinu. Allt er þetta gott og góðra gjalda vert og í raun og veru fagnaðarefni vegna þess að, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur sagt, komist Framsóknarflokkurinn til valda verða skuldamál heimilanna leiðrétt strax. (Gripið fram í.) Hv. formaður fjárlaganefndar upplýsir að það verði í haust og því fagna ég vegna þess að það er ljóst, eins og hér hefur komið fram, að fólk bíður eftir þessu, fólk er hætt að borga af lánum o.s.frv. vegna þess að það er að bíða eftir þeim aðgerðum sem kosningarnar voru unnar á, dýrasta kosningaloforði Íslandssögunnar sennilega, en það er annar handleggur.

Ég ætla hins vegar að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktsson, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, út í það sem stóð í kosningastefnuskrá þeirra, þ.e. „Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á næsta kjörtímabili eru:“ — og svo voru þau nokkur talin upp. Spurning mín lýtur að ákvæðinu um skattfrjálsan séreignarsparnað sem getur runnið inn á húsnæðislán vegna þess að það er ekki sjá að það sé hér inni. Hvað varð um séreignarsparnaðarleið Sjálfstæðisflokksins? Af hverju er hún ekki með jafn mikið vægi í þessari tíu leiða áætlun og aðrar áætlanir sem hér eru inni?