142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

séreignarsparnaður.

[13:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Það sem vísað er til í umræddri þingsályktunartillögu er sérstaklega í einum lið og snýr að höfuðstólslækkunum húsnæðisskulda. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er þeim hópi sem skoðar þann þátt sérstaklega ætlað að skoða mismunandi leiðir og má lesa úr greinargerð undir þeim lið að þar eru menn opnir fyrir ólíkum útfærslum. Eitt af því sem kemur til álita þar er að beita skattasparnaði út af séreignarsparnaðinum sérstaklega til að ná þessu markmiði. Þá gætu menn nýtt sér það sem lagt hefur verið til hliðar í séreignarsparnað til niðurgreiðslu á höfuðstól skulda og fengið tekjuskattinn felldan niður varanlega. Þetta er ein leið til að ná markmiðinu. Þetta væri hægt að gera í sérstakri lagasetningu næsta vetur þannig að það gæti mögulega haft afturvirk áhrif. Þá er ég að vísa til þess sparnaðar sem safnast hefði upp frá og með kosningum, til dæmis, ásamt með ávöxtun, að hann væri hægt að nýta í þessum tilgangi ef menn veldu þá leið.

Það er samspil þessara leiða sem verður sérstaklega skoðað í viðkomandi nefnd, þ.e. sú leið að nota séreignarsparnaðinn til að ná niður höfuðstólnum, sú leið að fá skattafslátt vegna tekjuskattsgreiðslna af tekjum og eftir atvikum sérstök niðurfærsla sem fjármögnuð yrði með sérstökum hætti.

Svarið við spurningunni er að séreignarsparnaðarleiðin verður til skoðunar ásamt með öðru.