142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

séreignarsparnaður.

[13:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar við náum að eiga málefnalega umræðu í þinginu. Þá skemmir ekki fyrir þegar menn tefla fram sínum eigin hugmyndum þannig að við getum verið að skylmast svolítið á grundvelli hugmyndafræðinnar um það hvor leiðin sé betri til að ná tilætluðum árangri. Mér finnst afskaplega lítið hafa farið fyrir því hjá stjórnarandstöðunni að setja fram hugmyndir um það hvernig eigi að takast á við vandann. Reyndar verð ég að segja alveg eins og er að ég er farinn að efast um að stjórnarandstaðan telji nokkurn vanda vera til staðar yfir höfuð.

Varðandi það að ekki hafi þurft nefndir eða ráð til að grípa til aðgerða þá stend ég við það sem ég sagði á tilvitnuðum fundi, nefnilega að ef leið Sjálfstæðisflokksins hefði verið valin ein og sér hefði í sjálfu sér ekki þurft að ræða það frekar en við störfum hér á þinginu með samsteypustjórn og menn ræða sig niður á niðurstöðu. Á endanum verður það síðan þingsins að taka ákvörðun með lagasetningu (Forseti hringir.) en útfærsluna eins og við kynntum hana hefði verið hægt að setja (Forseti hringir.) í framkvæmd án frekari tafar.