142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[13:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir síðast, á ágætum fundi um makrílmálið í utanríkismálanefnd í morgun. Það er hins vegar annað mál sem ég ætla að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um í dag, það er mál sem hæstv. ráðherra mælti fyrir hér fyrir þjóðhátíð, frumvarp um veiðigjöld, sem enn er til 1. umr. í þinginu.

Samkvæmt gildandi lögum um veiðigjald á sérstaka veiðigjaldið að vera 23,20 kr. í botnfisksveiðum og 27,50 kr. á uppsjávarfisk í þorskígildistonnum talið, en miðað við það frumvarp sem hér liggur fyrir sýnist mér að sérstaka veiðigjaldið á botnfisk verði tæpar 3 kr. nettó og um 35 kr. á uppsjávarfisk.

Þrátt fyrir mikla lækkun á gjaldinu er samt sem áður gert ráð fyrir miklum afslætti til viðbótar vegna skulda eða kaupa á aflaheimildum en samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins er um að ræða tæpa 2 milljarða kr. í sérstakan afslátt. Botnfisksútgerðin fær að auki alla aukninguna á nýju fiskveiðiári í sinn hlut og borgar ekki nema innan við 3 kr. í sérstakt veiðigjald af því.

Getur ráðherrann staðfest að vegna mun betri afkomu af nýtingu auðlindarinnar á næsta ári hefði veiðigjaldið orðið mun meira en gert hafði verið ráð fyrir, jafnvel svo að tekjurnar yrðu 3–4 milljörðum meiri en ráð var fyrir gert? Er þá ekki ljóst að tekjutap fyrir ríkissjóð er þeim mun meira en sem fram kemur í frumvarpinu?

Er ekki einnig ljóst í huga ráðherrans að það er engin eining innan greinarinnar milli uppsjávar- og botnfisksútgerða vegna þessa frumvarps?

Getur hæstv. ráðherra gert þinginu nákvæmlega grein fyrir samráðinu við veiðigjaldsnefndina vegna þessa máls, sem er áskilið samkvæmt lögum? Var hún til að mynda höfð með í ráðum og hver er hlutur hennar í útfærslu og útreikningum sem frumvarpið byggir á?