142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að skapað er svigrúm fyrir þessa umræðu sem bæði þingflokkar Vinstri grænna og Samfylkingar höfðu óskað eftir. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að reyna að öðlast yfirsýn og reyna að horfa á heildarmyndina hvað ríkisfjármálin varðar en ekki bara takast hér á um einstök frumvörp eða einstaka þætti. Ég veit að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er sömu skoðunar og fagnar þessu tækifæri, samanber það sem hann sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma hér í vikunni.

Við höfum ekki mikla leiðsögn um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlast fyrir í ríkisfjármálum annað en þær brotakenndu myndir sem birtast í einstökum frumvörpum. Samstarfsyfirlýsing flokkanna er afar fáorð í þessum efnum. Enginn kafli er þar helgaður ríkisfjármálum þó að í sjálfu sér sé ekkert út á það að setja sem þar stendur eins og að agi og jafnvægi í ríkisfjármálum gegni lykilhlutverki við að tryggja stöðugleika, lægri vexti og litla verðbólgu og að markvisst þurfi að vinna að því að lækka skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hver tekur ekki undir þetta? En við erum í sjálfu sér ekki miklu nær, því miður.

Hæstv. ríkisstjórn hélt blaðamannafund á dögunum og taldi þar að hún væri að uppgötva þann sannleik að viðskilnaðurinn, staðan og horfur í ríkisfjármálum, væri lakari en þeir höfðu þá átt von á, væntanlega í góðri trú sinni á fráfarandi ríkisstjórn. Ég fór að skoða þessi plögg og það vakti athygli mína að á blaðamannafundinum sem haldinn var 12. júní voru ekki einu sinni notuð nýjustu gögn frá ríkisstjórninni sjálfri eða ráðuneytum hennar um afkomu ríkissjóðs. Það er augljóst að verið er að reyna að dekkja þessa mynd samanber það að þarna er talað um að lakari innheimta á fyrsta ársfjórðungi ársins hafi leitt til þess að tekjuáætlun sé endurskoðuð; fyrsta ársfjórðungi, fyrstu þremur mánuðum ársins.

Þetta er 12. júní en 28. maí kemur fjögurra mánaða uppgjör ríkissjóðs og hvað stendur þar? Þar stendur að staða handbærs fjár frá rekstri batni miðað við sama tímabil 2012, sé neikvætt um 4,3 milljarða en var neikvætt um 6,1 milljarð 2012. Tekjur hækka um 7,1 milljarð milli ára. Gjöld jukust um 5,6 milljarða kr. Þessi útkoma er betri en áætlað var þar sem gert var ráð fyrir að handbært fé yrði neikvætt um 6,3 milljarða kr. Og neðar stendur að í grófum dráttum teljist tekjur ársins því á áætlun og ljóst sé að það neikvæða frávik sem fram hafi komið í greiðsluafkomu fyrsta ársfjórðungs hafi að mestu gengið til baka. En samt er þessi sami fyrsti ársfjórðungur notaður á blaðamannafundi 12. júní, tæpum hálfum mánuði eftir að fjórir mánuði eru komnir í hús en ekki bara þrír.

Þetta finnst mér ekki fullkomlega vönduð vinnubrögð. Stóra málið er auðvitað það hvað stendur til hjá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum. Auðvitað eru forsendur fjárlaga aldrei klappaðar í stein. Auðvitað verða frávik. Auðvitað eru veikleikar í fjárlögum og hafa alltaf verið og ég veit ekki betur en fjármálaráðuneytið keyri lista með 25 til 30 stofnunum sem eru vaktaðar reglulega vegna þess að menn hafa áhyggjur af því að þær kunni að fara fram úr. Það er framkvæmdarvaldsins að takast á við slíkt, fylgjast með framvindu mála og bregðast þá við eftir atvikum. En það er fátt sem bendir til annars, enn sem komið er sem betur fer, en að forsendur fjárlaga haldi í aðalatriðum eins og þær voru lagðar niður. Sumt er jákvætt og annað síður jákvætt sem breyst hefur frá því að við afgreiddum fjárlög í desember.

Ég skal nefna þrjá jákvæða hluti. Atvinnuleysi lækkar núna hraðar en spár höfðu gert ráð fyrir; 4,3% í maí er lægri tala en við áttum von á. Tölur af stærðinni 3,6–3,8% í júní verða auðvitað mikið fagnaðarefni borið saman við það sem við sáum áður. Ferðaþjónustan hefur aukist meira að umsvifum í vetur og horfur yfir árið í ár eru betri en spár gerðu ráð fyrir og voru þær þó glæsilegar. Þorskveiðikvótinn verður væntanlega aukinn um 20 þús. tonn núna innan fárra vikna.

Annað er neikvæðara eins og spár um heldur minni hagvöxt á þessu ári á Íslandi eins og reyndar í gjörvallri Evrópu. Spurningar mínar til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eru fyrst og fremst þessar: Hversu stórt gat hefur ríkisstjórnin þegar ákveðið í fjárlög yfirstandandi árs með þeim frumvörpum sem hún er búin að leggja fram eða hyggst leggja fram næstu ár? Við erum komin í 4 milljarða í tekjutap með frumvörpum sem liggja fyrir. Hvað er í vændum og hversu stórt verður þetta gat á árinu 2014? Ætlar ríkisstjórnin að halda við markmið um hallalaus fjárlög með afgangi 2014 og hvernig ætlar hún þá að fara að því?

Þetta er ósköp einfalt. Þetta eru engin geimvísindi. Þetta eru tekjur og þetta eru útgjöld. Þetta er debet og þetta er kredit. Má ég frábiðja mér allar Laffer/vúdú-hagfræðikenningar í þessum efnum. Þetta er bara einfalt og ég vona að hæstv. fjármálaráðherra gerist maður raunsæis þegar hann fer að glíma við þessi mál. Og sérstaklega mundi ég í sporum hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) vera sár á allar tekjur sem ríkið er að missa út (Forseti hringir.) við þessar aðstæður.