142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér ríkisfjármál ríkisstjórnar sem boðaði bjartsýni, kjark og þor en hefur sitt skeið í umræðu um fjármál með óttalegu væli og úrtölum og kjarkleysi.

Það er tvennt sem hefur einkennt umræðuna. Í fyrsta lagi hafa hæstv. ráðherrar, forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, strax þegar í sumarbústað var komið farið að ræða um að þeir hefðu ekki vitað hver staðan var og margt hefði komið þeim á óvart sem endaði svo með fundi með sérstakri glærusýningu í Þjóðmenningarhúsinu 12. júní síðastliðinn. Í öðru lagi hefur hæstv. forsætisráðherra ítrekað kveinkað sér undan því að honum séu lögð orð í munn, að þeim séu ætluð ýmis áform varðandi niðurskurð og annað sem þeir hafi aldrei sagt.

Það er kannski ástæða til að velta fyrir sér af hverju þetta er svona. Af hverju vita þessir háu herrar, hæstv. ráðherrar, ekki betur? Er þetta svipað og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins um að afnema tekjutengingu lífeyrisgreiðslna við tekjur maka, atburður sem átti sér stað árið 2008 og þurfti engin kosningaloforð til að efna? Eru menn ekki betur lesnir en þetta eftir það sem á undan er gengið, að við höfum þurft að gera okkur fyllilega grein fyrir því hversu erfitt það hefur verið og er að reka íslenskt þjóðarbú, hversu miklu aðhaldi hefur þurft að beita, sársaukafullum aðgerðum bæði í tekjuöflun og í rekstri? Ég held að þessum háu herrum hefði átt að vera þetta ljóst fyrir löngu. Var þeim ekki ljóst að við erum að velta í gegnum fjárlög ríkisins um það bil 573 milljörðum kr. og að vaxtakostnaðurinn er þar tæpir 90 milljarðar?

Síðan koma fram menn sem eru nýteknir við á miðju ári og kveinka sér undan því að á árinu 2013 sé búið að ráðstafa um 1 milljarði af fyrrverandi ríkisstjórn og segja að það raski fjárlögum. (Gripið fram í: Þeir eru margir milljarðarnir.) Þetta eru tölur úr þeirri glærusýningu sem er samtals með óvissuþætti upp á 6 milljarða, þar af 5 í framúrakstri og 1 milljarður — nú er þetta beint eftir glærunum — tengist ákvörðunum fyrrverandi ríkisstjórnar. Þetta eru tölurnar sem voru lagðar fram í fjölmiðlum. Þegar við skoðum hvað þessir 5 milljarðar eru þá erum við að tala um 1% af fjárlögum. Ég hefði gaman af að skoða á þeim 18 árunum sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi ríkisstjórnir og oftast fjármálaráðuneytið hvort þeir hafi verið svona nálægt því að vera innan við 1% í fráviki á þeim tíma. (Gripið fram í: Aldrei.) Það er alla vega eitthvað sem ég hef ekki séð áður. (Gripið fram í.) Og að þær fyrirframákvarðanir sem voru teknar, að vísu á þessu ári, skyldu vera 0,2% af veltu, eigandi eftir að fara yfir fjárlögin með fjárlaganefnd og hv. formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, sem kallar væntanlega inn alla forstöðumenn, fer yfir reksturinn eins og gert er á hverju ári til að endurskoða hvort menn geti staðið við þau fjárlög sem búið hefur verið við. Þar hafa menn unnið eftir reglunni plús/mínus 3% og þurft að færa til yfir áramótin ýmist sem halla eða inneign. Ég veit ekki til þess að sé búið að breyta þeirri reglu.

Þegar menn bera svo fyrir sig að tekjuspáin hafi brugðist hefur það komið ágætlega fram hér áður að menn notuðu þriggja mánaða uppgjör þar sem Hagstofan spáði að það vantaði 4 milljarða í tekjur. Strax mánuði seinna var búið að vinna það upp í pappírum frá hæstv. fjármálaráðuneytinu þar sem allt stefnir í að tekjuspá muni standast.

Af hverju draga menn fram þessa dökku mynd nema til að undirbúa sig undir einhverja væntingastjórnun sem felur í sér að geta afsakað það að þeir standi ekki við ákveðna hluti? Af hverju kveinka menn sér undan því þegar hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson kemur og segir: Ja, það þarf að endurskoða áform fyrri ríkisstjórnar — og nefnir sérstaklega gjaldfrjálsar tannlækningar? Svo er það kölluð aðför eða ég veit ekki hvað hæstv. forsætisráðherra kallaði það, að við værum að ljúga upp á þá einhverjum áformum, þegar við spyrjum hvort það sé ætlunin.

Við spurðum líka: Af hverju reiknuðu menn ekki sterkara gengi inn í tekjurnar? Verðbólgan er undir áætlun, aukning í þorskafla, minna atvinnuleysi. Allt það sem var viðskilnaðurinn frá fyrrverandi ríkisstjórn. Af hverju er það ekki komið inn í þessar tölur og inn í Þjóðmenningarhúsið? Nei, það er sama og hér hefur verið rætt af fyrrverandi þingmönnum, þeim sem hafa talað á undan mér, menn hafa einmitt ákveðið að bæta í á ýmsum sviðum.

Hv. formaður fjárlaganefndar nefnir hér að enginn sparnaður hafi orðið af sameiningu ráðuneytanna við þær breytingar. Það liggur fyrir í tölum að velferðarráðuneytið hefur sparað 20% síðan það var sameinað, um 200 millj. kr. (Gripið fram í.) Það verður gaman að fylgjast með því þegar það verður fært saman síðar þegar menn fara að skoða hvað kostaði að breyta því til baka.

Það sem við erum að glíma við er hefðbundin stjórn ríkisfjármála við mjög erfiðar aðstæður. Það hefði verið betra ef menn hefðu hugsað það þegar þeir fóru að lofa nokkur hundruð milljörðum og kveinka sér svo undan því að almannatryggingarnar gætu kostað 10 milljarða eftir fimm til tíu ár og þegar allt væri komið til enda, þegar hámarkinu væri náð, yrðu það 20 milljarðar. Það er akkúrat (Gripið fram í.) þetta dæmigerða sem er verið að nefna sem menn vorkenna sér yfir á sama tíma og þeir fella niður gjöld á útveginum við bestu aðstæður (Forseti hringir.) frá því að kvótakerfið kom á, bestu tvö undanfarin ár. Þar ætla menn að létta frekar en eldri borgurum og öryrkjum. (Gripið fram í: Ekki gerðuð þið það.)(Gripið fram í: Nei.)